144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:32]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, heldur betur held ég að það sé þörf á fjárfestingu eftir mjög erfið ár í kjölfar hruns þar sem ég held að mjög hafi verið gengið á innviði samfélagsins. Það þarf augljóslega að fjárfesta í hjúkrunarheimilum, uppbyggingu heilsugæslu, í vegum, nýsköpun og rannsóknum, ég held að það sé mjög viturleg fjárfesting, uppbyggingu fjarskipta, innviðum ferðaþjónustunnar o.s.frv. Þetta hljóta að teljast arðbærar fjárfestingar sem verður að fara í og ef við förum ekki í þær missum við af arði. Ég sakna þess og mér finnst þetta skjal eiginlega skila auðu í því. Það er beinlínis sagt á einum stað að það verði eitthvað í kringum 6–7 milljarða svigrúm á ári í nýjar óráðnar fjárfestingar, ekkert sagt til um það hvaða fjárfestingar það gætu verið. Liggur þá ekki fyrir nein áætlun um fjárfestingar?

Við erum ekki bara að tala um hlutfall af landsframleiðslu í fjárfestingu. Í áætluninni um 2017, 2018 og 2019 (Forseti hringir.) hækkar að krónutölu fjármagnið til fjárfestingar nánast ekki neitt og á að standa í stað í 30 milljörðum. Þetta finnst mér svolítið (Forseti hringir.) metnaðarlaust miðað við stöðuna.