144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:40]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Á bls. 21 varðandi meðferðarkjarnann er einmitt ekki hægt að lesa út úr áætluninni hvenær á tímabilinu þetta verði og hvernig fjármagnað.

Það er annað sem mig langaði til að velta upp. Þingmaðurinn sagði að það væri töluvert margt óvíst í þessu frumvarpi og ég tek undir það. Þegar ég las það í gegn fannst mér ansi margir óvissu- og áhættuþættir og það er líka álit þeirra sem hafa fjallað um þetta, t.d. Hagstofunnar. Þarna kemur meðal annars fram að ríkisábyrgðirnar eru miklar og við þekkjum hvað hefur þurft að færa inn til Íbúðalánasjóðs. Hér er augljóst að búin var til aukin áhætta með skuldaniðurgreiðslunni sem við þekkjum svo vel af hálfu Framsóknarflokksins sem varð til þess að Íbúðalánasjóður stendur enn verr en áður sem er eitt af þessu sem er líka stór áhætta miðað við framvinduna.

Á bls. 40 er verið að tala um óreglulega liði. Þegar ég las um þá hugsaði ég að það væri svolítið sérstakt að fjalla um svona svakalega stóran ramma þar sem 160 milljarðar eru í rauninni teknir út úr áætluninni. Þetta eru ekki allt einskiptisaðgerðir. Sér þingmaðurinn hvernig í ósköpunum við getum haft áhrif á það? Telur hún hægt að meta áætlunina þegar svo margir liðir (Forseti hringir.) eru inni sem óreglulegir og teknir út fyrir sviga, í rauninni ekki beinlínis til umfjöllunar hér?