144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsaleigulög.

696. mál
[16:11]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir andsvarið. Hann spyr aðallega út í tímarammann. Það er rétt að hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra skipaði starfshóp eða verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála í september 2013 en verkefnisstjórnin skilaði af sér 6. maí 2014. Hv. þingmaður talar um lítið frumvarp og langur tími sé frá því að við skiluðum af okkur. Ég vil svara þessu þannig að ég held að það hafi komið mjög vel fram á síðasta kjörtímabili að mjög mikil vinna fór í verkefnisstjórnir og skýrsluskrif er varða húsnæðismarkaðinn og úrbætur á honum. Þeir sem störfuðu í þeim verkefnisstjórnum og voru í ráðuneytinu á þeim tíma vita vel að þetta er flókinn málaflokkur sem tekur ákveðinn tíma. Það sýndi sig best að á síðasta kjörtímabili var unnin mjög mikil og flott vinna sem kemur meðal annars svolítið fram í þessum tillögum, en það komu engin frumvörp á fjórum árum. Þannig að ég held að það segi bara það sem segja þarf. Þetta er stór málaflokkur. Margir mismunandi aðilar koma að þessu með mismunandi sýn. Mikið samráð var haft varðandi þessar tillögur og þess vegna er ósköp eðlilegt að það hafi tekið allan þennan tíma, þó að ég hefði gjarnan viljað sjá þetta fyrr.