144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsaleigulög.

696. mál
[16:16]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alltaf glaður þegar aðrir hv. þingmenn eru glaðir. Þess vegna gleðst ég með hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir það hversu vel þetta frumvarp fer í hana. Síst skal ég draga úr mikilvægi þess, en þó bendi ég á að ekki voru allir jafn glaðir með frumvarpið. Ég minnist þess að forvígismenn Samtaka leigjenda höfðu við það mjög sterkar athugasemdir, raunar svo sterkar að þeir lýstu því yfir, þegar frumvarpið kom fram, að þeir hefðu sent frá sér áskorun til ráðherrans um að betra væri að það lægi í skúffunni en að það kæmi fram. Hæstv. ráðherra hefur hins vegar sagt það alveg skýrt að hún geri sér grein fyrir því að agnúar eru á frumvarpinu og hefur lofað atbeina sínum við að breyta því.

Hv. þingmaður, sem flutti hér prýðilega skilagrein fyrir viðhorfum sínum og lýsti gleði sinni yfir frumvarpinu, gat þess jafnframt að þetta væri þó bara eitt af fjórum frumvörpum. Þá langar mig til þess að spyrja hvort það örli á einhvers konar gleði í hennar brjósti gagnvart samstarfsflokknum sem hefur stoppað mikilvægasta frumvarpið, frumvarpið sem hefur að geyma það sem við öll höfum beðið eftir, og ekki bara við heldur allt það fólk sem þarf að þola þau lögmál villimennskunnar sem segja má að ráði að minnst kosti kjörum leigjenda á markaðnum núna.

Mig langar þess vegna til að spyrja hv. þingmann: Hvað finnst henni um þessa framkomu Sjálfstæðisflokksins sem bókstaflega með handafli hendir frumvarpinu út úr ríkisstjórn, lýsir yfir vantrausti á útreikningum hæstv. félagsmálaráðherra og lætur fína kontórista sitja á málinu í ráðuneytinu, hvað finnst henni um þetta? Hún getur varla verið mjög glöð út í samstarfsflokkinn.