144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsnæðissamvinnufélög.

697. mál
[18:24]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherra svarið eða svörin. Spurning númer tvö var hvort það hefði komið til að herða á skyldum og ábyrgð sveitarfélaga varðandi skipulagða umgjörð leigu- og búseturéttarmarkaðar sem væri áætlað að stæði til framtíðar. Þá kemur kannski að því, eins og ráðherrann reyndi að svara í lokaorðum sínum, að þetta er spurning um höfuðborgarsvæðið og aftur landsbyggðina og dreifbýli, hvort þessi lög ná að koma til móts bæði við landsbyggðina og höfuðborgarsvæðið. Það er ljóst að það nær til höfuðborgarsvæðisins, þar er ekki vandamál að búa til félag sem í eru 15 einstaklingar. Það gæti reynst erfiðara í smærri sveitarfélögum á landsbyggðinni og þá hugsar maður og veltir upp þessari spurningu: Er þá rétt að þau sveitarfélög þurfi að sækja um undanþágu frá lögum? Er þá ekki rétt að gera alveg eins ráð fyrir því í lögunum að lækka þessa höfðatölu, þessa 15, vegna þess að ég held að það geti verið sveitarfélög vítt og breitt um landið, dreifð byggðarlög, sem munu ekki geta uppfyllt þessi skilyrði. Þá er svolítið sérstakt fyrir löggjafann að fara af stað með jafn viðamikið frumvarp og þetta er og ætla svo smæstu sveitarfélögunum að fara að leita að undanþágu frá lögunum. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort þessu hafi verið velt upp og hvort hann sjái eitthvað því til fyrirstöðu að því verði breytt í þá veru.