144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

dómstólar.

669. mál
[19:08]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Þetta er ágætlega rökstutt í athugasemdum við frumvarpið og í sjálfu sér örugglega bæði brýnt og mikilvægt mál. Við erum því miður oft í þinginu að setja lög sem snúast um bráðabirgðaráðstafanir þar sem við gerum ráð fyrir því að eitthvert ástand muni vara í einhvern tiltekinn tíma og sitjum svo uppi með það ítrekað að framlengja slík ákvæði sem er kannski ekki góður bragur á lagasetningu almennt, að hræra mikið í slíku, þannig að ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji að hér sé einhver slík hætta á ferðum. Getum við verið viss um það að þessi tímabundna ráðstöfun dugi eða megum við vænta þess að haustið 2016 þurfum við aftur að framlengja?

Önnur spurning mín varðar kannski ekki beinlínis það frumvarp sem hér er til umræðu heldur almennt það hvernig hún telji vænlegast að skipa málum að því er varðar kynjasjónarmið við mönnun bæði í Hæstarétti og við héraðsdómana. Kynjaójafnvægi í dómstólum landsins er sjálfstætt viðfangsefni og sjálfstætt áhyggjuefni. Sér hún fyrir sér að hægt sé að beita einhverjum tilteknum og skilgreindum ráðstöfunum til að úr því verði bætt fljótar en í því lagaumhverfi sem við búum við í dag?