144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

dómstólar.

669. mál
[19:15]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að fara í smáhugmyndafræðilega umræðu um þetta. Ég er þeirrar skoðunar að það sé samfélaginu fyrir bestu að sjónarmið beggja kynja ráði för. Ég hef talað fyrir því, ég hef hins vegar ekki verið þeirrar skoðunar að það eigi að gera með þvinguðum hætti. Mér hefur fundist mikilvægt að samfélagið geri sér grein fyrir því hversu miklu það skiptir. Það hefur átt við mín sjónarmið þegar kemur til dæmis að vali á listum, þá er það mín skoðun að það sé eðlilegt að alltaf sé valið sitt á hvað, menn eigi bara að sjá hversu óskynsamlegt það er að vera bara með annað kynið. Þá getum við talað um hvort kynið sem er.

Í því ráðuneyti sem ég er í núna sem oft og tíðum hefur verið mjög karllægt ráðuneyti er nú yfirstjórnin meira og minna öll konur. Báðir mínir aðstoðarmenn eru konur. Maður þarf að hafa þetta dálítið með sér í hjarta sínu og mér þykir það farið að færast til beggja kynja að það sé mikilvægt að svo sé.

Það eru reglur um skipun héraðsdómara. Þar hefur skipunin kannski verið mest að undanförnu og þar þarf að gæta að mjög stífum hæfisskilyrðum og hæfniskröfum sem þeir sem um sækja þurfa að uppfylla. Það er ekki alltaf þannig að ráðherra hafi val um það. Það verður auðvitað að velja þann sem menn meta hæfastan til að gegna þessu mikilvæga starfi en þá finnst mér svo miklu skipta að við sjáum að konur eru að leita miklu meira inn í þessi störf og eru að spretta upp. Þá trúi ég því og ég tel mig sjá þess merki að það muni koma fram í Hæstarétti líka og það mun svo sannarlega skipta máli.