144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Af því að hér var rætt um hvað framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda sagði þá held ég að rétt sé að hafa það allt saman. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Það er með talsverðum ólíkindum að meira en mánuði eftir uppkvaðningu dóms, þar sem útboðsgjald er sagt ganga gegn stjórnarskránni, skuli atvinnuvegaráðuneytið hafna kröfu um endurgreiðslu án nokkurs rökstuðnings.“

Það er eitthvað sem er ekki ásættanlegt. Við getum haft allar skoðanir á málum almennt en ég verð að segja að mér finnast þetta vera málefnaleg og eðlileg sjónarmið sem koma fram hjá framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda.

Ég ætla ekki að ræða það hér heldur ætla ég að ræða húsnæðismálin sem ég hef áhyggjur af. Ég hef sérstaklega áhyggjur af stöðu ungs fólks þegar kemur að húsnæðismálum. Leigan hér á höfuðborgarsvæðinu er mjög há og fasteignaverð er mjög hátt og það erum við stjórnmálamenn sem höldum því uppi. Við gerum það vegna þess að Íbúðalánasjóður heldur uppi verði á fasteignum, sömuleiðis Kadeco, sem er á Keflavíkurflugvelli, og síðan bankar, m.a. ríkisbankinn. Ef við viljum gera eitthvað úr þessu þá erum við með eðlilegt markaðsverð á þessum eignum, þá lækkum við verðið á þessum eignum því að við högnumst ekki á því að fyrirtæki og stofnanir í eigu skattgreiðenda þurfi að borga viðhaldið í tómu húsnæði og jafnvel þó að það þýði að einhver lækkun verði um einhvern tíma þá mun það koma til baka. Það er óþolandi, þetta er orðið eitt svæði, þetta snýst ekki bara um Reykjavík og það sem við köllum nágrannasveitarfélögin. Við erum fyrir lifandi löngu komin með stærsta hlutann af suðvesturhorninu, Suðurland og Suðvesturland, undir og það er lykilatriði að hjálpa þessu fólki.

Einnig þurfum við að skoða það að við settum lög um greiðslumat sem gera að verkum að fólk neyðist til að leigja þó að það væri ódýrara fyrir það að kaupa. Það bara kemst ekki gegnum greiðslumatið. Þegar kerfið er þannig að greiðslumatið (Forseti hringir.) ýtir fólki í hærri leigu en það þyrfti að greiða af lánum þá er eitthvað að því kerfi. Við þurfum að skoða það, virðulegi forseti.