144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

innflutningur dýra.

643. mál
[16:23]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um innflutning dýra, nr. 54/1990, með síðari breytingum, sem er á þskj. 1106, 643. mál.

Efling nautakjötsframleiðslu og staða holdanautastofnsins hér á landi hefur verið til umfjöllunar á síðustu árum. Fyrir liggja nokkrar skýrslur um eflingu nautakjötsframleiðslu og stöðu holdanautastofnsins ásamt áhættugreiningu varðandi fyrirkomulag innflutnings á erfðaefni. Þá liggur fyrir skýrsla Matvælastofnunar um mögulegar aðgerðir til að minnka hættu á því að smitsjúkdómar berist hingað til lands við innflutning á erfðaefni.

Áhugi hefur verið fyrir því meðal bænda um allnokkurt skeið að flytja inn erfðaefni til að bæta stofn holdanautgripa. Samkvæmt núgildandi lögum er óheimilt að flytja til landsins erfðaefni dýra. Ráðherra getur vikið frá banninu að fengnum meðmælum yfirdýralæknis enda sé fylgt þeim fyrirmælum sem felast í lögum um innflutning dýra, nr. 54/1990, og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Dýr sem vaxið hafa af innfluttu erfðaefni má hins vegar aldrei flytja af sóttvarnastöð.

Með frumvarpi þessu, sem samið er í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, er lagt til að ferill við innflutning á erfðaefni nautgripa verði einfaldaður og að Matvælastofnun verði heimilt að veita leyfi til innflutnings á erfðaefni holdanautgripa að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þá er lagt til að heimilt verði að flytja holdanautgripi sem vaxið hafa af innfluttu erfðaefni úr einangrunarstöð að fengnu leyfi og að uppfylltum skilyrðum yfirdýralæknis. Þannig er stefnt að því að stuðla að erfðaframförum í holdanautgiparækt hér á landi.

Í nóvember 2014 var skipaður starfshópur til að gera tillögu að reglum sem gilda skulu um innflutning erfðaefnis holdanauta og kröfur um útbúnað einangrunarstöðva. Hópurinn er skipaður fulltrúum Matvælastofnunar, Landssambands kúabænda og tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræðum að Keldum. Tillögum að reglum skilaði hópurinn þann 1. apríl sl. sem nú eru til skoðunar í ráðuneytinu.

Þá er einnig í frumvarpinu gert ráð fyrir skýrri lagaheimild til gjaldtöku vegna eftirlits samkvæmt ákvæðum laga nr. 54/1990, um innflutning dýra. Þar með er brugðist við ábendingum þess eðlis að núverandi ákvæði tryggi ekki heimildir Matvælastofnunar til gjaldtöku vegna eftirlits, umsýslu og skoðunar skjala við innflutning samkvæmt ákvæðum laganna.

Undanfarin ár hefur framleiðsla á innlendu nautakjöti ekki annað eftirspurn á markaði. Árið 2005 var heildarframleiðsla á nautakjöti 3.540 tonn en neysla hér innan lands um 3.550 tonn. Árið 2013 var framleiðslan 4.082 tonn en neyslan 4.338 tonn. Fyrstu sex mánuði ársins 2014 var framleiðsla nautakjöts um 1.700 tonn og innflutningur nautakjöts á sama tímabili var um 540 tonn. Horfur eru því á að viðvarandi skortur verði á íslensku nautakjöti á innanlandsmarkaði. Markmið frumvarpsins er því að skapa aðstöðu til þess að unnt verði að flytja inn nýtt erfðaefni til að efla holdanautastofninn og auka nautakjötsframleiðslu hér á landi til hagsbóta fyrir framleiðendur og neytendur.

Verði frumvarp þetta að lögum verður hægt að flytja til landsins erfðaefni holdanautgripa og heimilt verður, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, að flytja holdanautgripi sem vaxið hafa af innfluttu erfðaefni úr einangrunarstöð. Matvælastofnun og yfirdýralæknir eru vel í stakk búin til þess að takast á við þau verkefni sem þeim eru falin samkvæmt frumvarpi þessu.

Sambærilegar reglur gilda um innflutning á djúpfrystu svínasæði og hefur því skapast reynsla við meðferð sambærilegra mála hjá stofnuninni. Mikilvægt er að gæta að smitsjúkdómahættu við innflutning erfðaefnis, og með því að setja skilyrði fyrir innflutningi, vali á erfðaefni og einangrun auk þess sem yfirdýralækni er falið eftirlitshlutverk er stefnt að því að lágmarka hættu á því að sjúkdómar berist hingað til lands við innflutning erfðaefnis.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu atriðum frumvarpsins og ástæðum fyrir framlagningu þess og legg til að því verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.