144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

innflutningur dýra.

643. mál
[16:29]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona svo sannarlega að við eflingu nautgriparæktar skapist sífellt fleiri möguleikar á að uppfylla þarfir markaðarins. Varðandi kálfakjötið sem ég býst við að hv. þingmaður sé að vísa til, þ.e. hvíta kjöts kálfa, þá hafa svo sem verið uppi sjónarmið um það. Kálfarnir eru fyrst og fremst aldir á mjólk og úti í hinum stóra heimi hefur kálfunum í raun verið meinaður aðgangur að öðru en mjólk og maís til þess að litarefnið í kjötinu breytist ekki. Það stangast svolítið á við þann dýravelferðar- og siðferðisstatus sem við á Vesturlöndum höfum sett okkur í seinni tíð. Engu að síður er möguleiki á að framleiða kálfakjöt, þó við þær aðstæður að kjötið verður ekki eins hvítt og menn kannast við úr kokkabókum úr hinu franska eldhúsi, svo að dæmi sé tekið; það yrði þá gert með eðlileg dýravelferðar- og siðferðissjónarmið að leiðarljósi.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að bændur hafa farið fram á þetta í mjög langan tíma. Þau holdanautakyn sem eru í landinu eru aðallega þrjú. Það er langt síðan erfðaefni var flutt inn þannig að það er orðið hálfgert vandamál að framrækta þá stofna. Erfðaefnið er orðið yfir 20 ára gamalt, það elsta, jafnvel eldra. Þar af leiðandi hafa þær framfarir sem hafa orðið í viðkomandi stofnum ekki nýst íslenskum bændum til þess að efla kjötframleiðslu sína og með þessu frumvarpi erum við að bregðast við því.