144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

innflutningur dýra.

643. mál
[17:19]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Sumir bændur munu sjá ákveðin tækifæri í því að fara þá leið sem frumvarpið opnar. Ef hv. þingmaður, sem er ungur bóndi, sér ekki ávinning af því að feta þá slóð fyrir sjálfa sig þá er veruleikinn einfaldlega þannig að hún fer hana ekki, en aðrir munu gera það ef þeir telja að í því sá ávinnings von. Og eigum við ekki bara að leyfa þeim að ráða því?

Hitt sem ég vildi gera athugasemd við hjá hv. þingmanni er að hún segir að hún sé ekki reiðubúin til að fallast á þann slaka á sóttvörnum sem er að finna í frumvarpinu. Nú hef ég áður sagt að ég geti alveg fallist á það að í frumvarpinu mætti kannski slá frekar í gadda með hvaða hætti á að setja reglur, þær komu ekki fram, en hins vegar er sagt að veita eigi leyfið að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Og ef í ljós kemur að þeim skilyrðum er ekki fullnægt þá getur yfirdýralæknir eytt erfðaefninu, afturkallað leyfið, eða ef dýr eru komin til vegna þessa innflutnings getur hann fyrirskipað að þeim verði lógað. Á þessu stigi finnst mér það kannski fulldjarft að ganga svo langt að fullyrða nánast að hæstv. landbúnaðarráðherra sé að gefa slaka á sóttvörnum. Ég les það ekki út úr frumvarpinu en ítreka það sem ég sagði áðan að kannski mætti hafa þetta skýrara, og þá mun hv. þingmaður og aðrir þeir sem um þetta fjalla væntanlega sjá til þess í nefndinni. Það er kannski helsti ágalli frumvarpsins að það er ekki nógu skýrt um væntanlegar reglur, því að hér er um að ræða grundvallaratriði fyrir mjög marga, sem ég skil vel að þurfi að taka tillit til.