144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

innflutningur dýra.

643. mál
[17:36]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ber mikla virðingu fyrir þeim sjónarmiðum sem hv. þm. Jóhanna María Sigmundsdóttir talar fyrir um að sýna varfærni í slíkum hlutum. Ég trúi því og tek undir að auðvitað á að efla rannsóknir á sviði nautakjötsframleiðslu eða eldri gripa til nautakjötsframleiðslu o.s.frv. Það erum við vonandi að gera og ég vil við þetta tækifæri minna á að við höfum aukið fjármagn til rannsóknarsamnings Landbúnaðarháskóla Íslands og við höfum þess vegna ný og aukin tækifæri til þess að efla þær rannsóknir.

Um nýliðun og þau sjónarmið sem hv. þingmaður ræðir vil ég segja fyrst: Ég verð var við núna, vegna þessarar eftirspurnarspennu og þeirra tækifæra sem menn horfa til, að margir eru farnir að hugsa sér til hreyfings, byggja sérhæfð nautaeldisbú, nautakjötsframleiðslubú eða breyta gömlum húsum með miklu sérhæfðari búskap í huga en kannski áður var. Hér áður var mjög algengt að sauðfjárbændur hefðu eldi nautkálfa sem hliðarbúgrein. Með breyttum sauðfjársamningi og hækkandi verði á erlendum mörkuðum á lambakjöti breyttist það þannig að menn ýttu frekar þeim búskap út úr samsetningu sinni og sérhæfðu sig í sauðfjárræktinni og það komu í raun og veru ekki margir í staðinn inn í það gat.

Eðli holdanautabúskapar er þannig að hann er mjög vel til þess fallinn að styrkja byggð og hafa sem hlutastarf í sveitum þar sem hentar. Það er raunverulega megineinkenni holdanautahjarðarbúskapar í nágrannaríkjum okkar að menn hafa þetta sem hluta af afkomu sinni.