144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

innflutningur dýra.

643. mál
[17:43]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þær spurningar sem hv. þingmaður varpar til mín um verslunina vil ég láta nægja að segja það að ég er sammála öllu því sem hæstv. forseti, Þorsteinn Sæmundsson, hefur sagt um þau mál úr þessum stóli. Bara til þess að rifja upp pólitíska sögu og mína eigin, þá nefni ég það að á sínum tíma lagði ég til að beitt væri ákvæði samkeppnislaga um að hluta í sundur stór birgjafyrirtæki sem höfðu náð einokun á markaði og var hálfdrepinn fyrir og nánast hrakinn úr embætti sem formaður Samfylkingarinnar á sínum tíma; ég rifja það bara upp. Ég stend hins vegar keikur með þeirri skoðun að það þarf að skoða þann hluta mjög vel.

Hv. þingmaður segir að það sé þingsins og fagnefnda að skera úr um hvort flytja eigi inn erfðavísa mjólkurkúa. Mig langar til að spyrja hv. þingmann beint út: Hver er hans skoðun á því?