144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

innflutningur dýra.

643. mál
[17:46]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni kærlega fyrir góða ræðu og fyrir þann kjark og það þor sem hann sýnir með því að þora að tjá sig um landbúnaðarmál þó að honum sé málið aðeins tengt. Jafnframt að þakka ég þann stuðning sem hann sýndi mér, að hann er sammála mér í því að ég megi nú aðeins tjá mig um sjávarútveginn.

Ég ætla ekki að lýsa því hvað mér líður betur undir ræðum hérna þar sem menn tala af þekkingu, þar sem maður heyrir að menn þekkja hlutina, í stað þess að sitja undir ræðum þar sem hv. þingmenn tala hér sumir hverjir tímunum saman án þess að hafa nokkurn skapaðan hlut vit á hlutunum, (Gripið fram í.) bara til þess að tala.

Mig langar að spyrja hv. þm. Harald Benediktsson, af því að hann þekkir þessi mál. Ég man þá tíð þegar við vorum með holdakynið í Hrísey og þegar sæðið og erfðaefnin voru flutt þar í gegn: Hver er munurinn á þessari aðferð og þeirri aðferð, þegar það var með þeim hætti?