144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

innflutningur dýra.

643. mál
[17:51]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka áhuga þingmanna og málefnalega umræðu um þetta mál hér í dag. Ég ætla að gera tilraun til að svara sumum spurningum eða hugleiðingum þingmanna og kannski vera með smávangaveltur um stöðuna og framtíðarhorfur.

Ef ég man rétt var tæplega 1/3 af því nautakjöti sem neytt var hér innan lands fluttur inn á síðasta ári. Neyslumarkaðurinn á Íslandi á nautakjöti er kominn yfir 5.000 tonn en kindakjötsmarkaðurinn er 6.600 tonn, og það er gríðarleg aukning í nautakjötinu ár frá ári, meðal annars vegna þess að hingað koma milljón ferðamenn, eins og fram kom hjá einum þingmanni, og margt sem bendir til þess að sá vöxtur sem verið hefur á síðustu árum, jafnvel 20% vöxtur, haldi áfram. Það eru því líkindi til þess að eftirspurn eftir nautakjöti til neyslu á innanlandsmarkaði vaxi mjög hratt áfram og gæti farið, ef fram heldur sem horfir, að nálgast markað á kindakjöti, en eins og þingmenn þekkja flytjum við út um 1/3 af kindakjötinu.

Það er því ljóst að fyrir þá bændur, sem vilja fara inn í nýja búgrein eða efla sig, sem eru að rækta gras og kjöt, er það vænlegur markaður að fara út í að framleiða nautakjöt. Á síðasta ári voru það um 900 milljónir, sá hluti sem var fluttur inn, sem við borguðum út í gjaldeyri í staðinn fyrir að framleiða hér innan lands. Það er því augljóst að fyrir unga bændur og eldri, sem vilja hasla sér völl í að framleiða matvæli á innanlandsmarkaði, er nautakjötsmarkaðurinn hvað bestur.

Það var líka hreyft við því hvort ungir bændur hefðu haft skoðun á þessu. Ráðuneytið styrkti forsvarsmenn ungra bænda til að kynna sér lífræna nautgriparækt á síðasta ári þar sem þeir hafa mikinn áhuga á því að ganga skrefinu lengra — eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson talaði um væri hefðbundinn íslenskur landbúnaður í versta falli túlkaður vistvænn og það er rétt. Hann jaðrar við að vera lífrænn þó að hann geti vissulega ekki fengið vottun nema menn gangi alla leið. Forsendan hjá forsvarsmönnum ungra bænda var sú að flutt yrði inn erfðaefni til þess að slíkur atvinnubúskapur yrði arðbær. Ekki eru til nýjar rannsóknir, en hv. þm. Haraldur Benediktsson benti á að slíkar rannsóknir eru í gangi, en eldri rannsóknir, þegar innflutningur var hér á tíunda áratug síðustu aldar, bentu til þess að um 25% meiri arðsemi væri í hreinum Aberdeen Angus- eða Limousine-gripum umfram íslenska kúastofninn, sem sagt að framala nautakjöt. Það eru því gríðarlega mörg tækifæri fólgin í því og vaxtarhraði. Hann byggist fyrst og fremst á því að hefðbundnum íslenskum nautum er gjarnan slátrað um tveggja ára aldur, þ.e. 24 mánaða aldur, og eru þá kannski orðin 230–270 kíló hjá þeim sem fóðra hvað best og það eru margir, en sambærilegur gripur af hreinu Aberdeen Angus- eða Limousine-kyni væri kannski 17–18 mánaða, þannig að það er augljós aukin arðsemi í því að geta framleitt sama magnið á styttri tíma.

Það eru því sannarlega tækifæri fólgin í þessu. Í skýrslunni, sem fjallaði um þessi starfsskilyrði og eflingu nautakjötsframleiðslunnar, sneru nokkur mál að framkvæmdarvaldinu, að Alþingi, að löggjafarvaldinu, og þetta er eitt þeirra, það er sem sagt að koma fram með frumvarp sem heimilar innflutning á erfðaefni — við erum að svara því með þessu frumvarpi, engu öðru.

Á síðasta ári samþykkti þingið í fjárlagatillögum 5,5 milljónir til þess að innleiða svokallað Euro-kjötmat á nautakjöti, sem við erum þá búin að hefja, það var líka eitt af þeim skilyrðum sem stóð upp á ríkisvaldið að standa fyrir og við erum þá búin að gera það og erum að innleiða það. Þar mun flokkunin koma miklu skýrar fram. Þetta kerfi var tekið upp í kindakjötinu fyrir nokkuð löngu, en í dag er allt of algengt að þeir sem eru að framleiða nautakjöt séu flokkaðir í of fáa flokka. Það er leikandi hægt að framleiða góða vöru af íslenska kúakyninu, jafnvel mjög góða og mjög eftirsóknarverða. Kjötið er fíngerðara eins og hér hefur verið rætt, og mörgum finnst það miklu betra ef vel tekst til, en kjöt af holdagripum sem er grófara, en það er líka hægt að gera það mjög vel. En þá verður flokkunin miklu meiri og þeir sem gera vel fá þá hærra greitt fyrir vöruna en þeir sem standa sig ekki eins vel.

Af því að hv. þm. Jóhanna María Sigmundsdóttir kom inn á að það vantaði hér aðra þætti þá er ég sammála því að það þarf að gera miklu fleira en þetta. En hér erum við fyrst og fremst að fjalla um eitt af þeim skilyrðum sem stóð upp á ríkisvaldið að uppfylla til að byggja upp betri starfsskilyrði fyrir nautakjötsframleiðsluna í landinu.

Við stöndum síðan frammi fyrir búvörusamningum og það er rétt að víðast hvar í hinum vestræna heimi er nautakjötsframleiðsla sú atvinnugrein sem er styrkt hvað mest, en á Íslandi sú atvinnugrein sem er styrkt minnst. Það skýrir kannski af hverju bændur hafa ekki verið að framleiða nægilegt magn á liðnum árum, en það er meðal annars vegna þess að ýmis skilyrði í umhverfinu hafa ekki verið nægilega góð. Við erum að taka á því með nýju kjötmati, við erum að taka á því með því að koma fram með þetta frumvarp og það þarf að gera fleiri hluti og í búvörusamningnum mun það án efa verða skoðað.

Ég tel afar mikilvægt að blanda ekki saman umræðu um innflutning á þessu erfðaefni holdagripa og síðan hugsanlegum innflutningi erfðaefnis vegna nýs mjólkurkúakyns eða íblöndun á því. Sú umræða er talsvert styttra á veg komin. Ekki hefur verið gert sérstakt áhættumat fyrir innflutning á mjólkurkúakyni. Það þarf að svara spurningunni um líffræðilegan fjölbreytileika, hvernig við stöndum þá við þær alþjóðlegu skuldbindingar að verja það erfðaefni sem felst í íslenska kúakyninu. Og reyndar blasa við fjölmargar aðrar spurningar sem þingmenn hafa verið að velta vöngum yfir í dag, meðal annars um vilja stéttarinnar, hvernig eigi að standa að kynbótastarfi o.s.frv. Það er hins vegar mjög mikilvægt að við klárum þetta mál helst nú í vor, því að ef við gerum það ekki þá seinkar þessu um ár, því að holdakýr í nautgriparækt eru fyrst og fremst sæddar, eða settir upp fósturvísar, síðla sumars og fram á haust, þær bera á vorin. Ef við ætluðum til dæmis að klára þetta í haust þá erum við að seinka þessu um eitt ár, þannig að í raun má segja að hér sé um dagsetningarmál að ræða sem við þurfum að klára fyrir vorið.

Það komu einnig fram, hjá hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, vangaveltur um íblöndun í mjólkurkúakyni. Hin íslenska mjólkurkýr getur framleitt um 10 þús. lítra af mjólk og er með gríðarlega afkastagetu, þær bestu, og bestu búin eru með meðaltalsafurðir upp á milli 7.000 og 8.000 lítra á ári eftir eina kú. Holdakýr mjólka ekki svona mikið þannig að engin hætta er á því að menn fari að blanda því inn til þess að framleiða mjólkurkýr, en menn eru hins vegar að nota það til þess að styrkja nautakjötsframleiðsluna. Og við höfum gert það áður, hér hafa verið Galloway-gripir og hér hafa verið Aberdeen Angus-gripir og hér hafa verið Limousine-gripir og þetta hefur allt gengið ljómandi vel.

Við þurfum hins vegar að hugsa um söguna og hún segir okkur að við eigum að fara varlega. Hér var innflutningur á karakúlfé árið 1933 sem olli alls kyns vandræðum sem við erum í raun enn að glíma við og hafði í för með sér ævintýralegan kostnað. Á síðasta einum og hálfum áratug höfum við séð koma inn vírusa eða jafnvel bakteríur, sem ekki valda sjúkdómum erlendis, í íslenska hrossakyninu sem valda faröldrum á Íslandi. Það er alveg ljóst að það hefur kostað okkur verulega mikla fjármuni. Þess vegna þarf í þessu máli að fara varlega, við verðum að hafa axlabönd og belti, og læra af reynslunni.

Kallað hefur verið eftir því að það vanti leiðir, í 2. gr. laganna í d-lið, 3. mgr., þar sem fjallað er um að hægt sé að heimila innflutning, að uppfylltum skilyrðum sem frá greinir í 8. gr. Þau skilyrði sem ég kom inn á í máli mínu — það er hópur sem skilaði af sér til ráðuneytisins í byrjun apríl og það er meira en sjálfsagt að þær niðurstöður sem þar eru, það eru tvær tillögur, fari til atvinnuveganefndar til umfjöllunar. Þar eru nánar skýrð út þau skilyrði sem þurfa að vera til staðar til að heimila innflutning og þar er reyndar um tvær mismunandi leiðir að ræða og ég tel mikilvægt að þingmenn kynni sér það í atvinnnuveganefnd og fjalli um það.

Um leið og við segjum að við ætlum að vera bæði með axlabönd og belti þurfum við jafnframt að átta okkur á því að við ætlum að fara að bæta skilyrðin eins hratt og við mögulega getum. Við þurfum ekki að gefa afslátt af sjúkdómahættunni. Hún hefur verið metin margsinnis, hún er lítil eða jafnvel hverfandi, en við getum aldrei verið 100% viss, eins og með karakúlféð, sem var flutt inn með vottorðum, sem hv. þm. Haraldur Benediktsson minntist á. Mig minnir að það hafi verið frá hinni virtu vísindastöð Halle í Þýskalandi sem þá var talin ein af þeim virtustu í Evrópu. Það var allt vottað í bak og fyrir en við fengum alls kyns pestir sem við höfum verið að glíma við síðan í okkar sauðfé. Það er líka rétt að innflutningur á erfðaefni í svín eða nautgripi er ekki nákvæmlega sá sami, vegna þess að eins og fram hefur komið eru svínabúin meira og minna lokuð en holdagripirnir munu ganga úti og blanda geði við aðra gripi, ekki bara af nautgripakyni heldur einnig af sauðfjár- og geitfjárkyni, og sumir sjúkdómar geta þar farið á milli.

Ég er líka sammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og fleirum sem komu inn á það að tækifæri, ef fram heldur sem horfir og menn munu snúa sér í auknum mæli að því að nýta landgæði á Íslandi til þess að framleiða nautakjöt og við förum að framleiða umfram innanlandsmarkað, eru til útflutnings á þessari vöru. Það er eftirspurn eftir grasframleiddu kjöti í vaxandi mæli, sem verður hægt að fá vel greitt fyrir.

Virðulegi forseti. Ég ætla að ljúka máli mínu með því að segja að ég tel mikilvægt að atvinnuveganefnd fari vel yfir málið og ég treysti henni fullkomlega til þess. Ég vil minna á að það er mikilvægt að við ljúkum við þetta mál núna í vor því að ella erum við að seinka framförum í nautgriparækt um eitt ár.