144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

framleiðsla, verðlagning og sala búvöru o.fl.

694. mál
[18:10]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu búvara. Ráðherra fór ágætlega yfir það í sínu máli hvað hér væri á ferðinni. Mig langar eftir sem áður að koma aðeins inn á tilefni frumvarpsins. Það er komið til vegna gagnrýni Ríkisendurskoðunar sem taldi að herða þyrfti eftirlit með framkvæmd búvörusamninga.

Í mars 2011 birti Ríkisendurskoðun skýrsluna Útvistun opinberra verkefna til Bændasamtaka Íslands og í niðurstöðu skýrslunnar segir:

„Matvælastofnun annast ýmsa stjórnsýslu vegna landbúnaðarmála og Bændasamtök Íslands fara með fyrirsvar fyrir framleiðendur búvara lögum samkvæmt. Samtökin annast einnig fag- og fjárhagslega framkvæmd verkefna á sviði landbúnaðarmála sem stjórnvöld og Alþingi hafa falið þeim með lögum, reglugerðum, samningum og ýmsum stjórnvaldsákvörðunum. Samtökunum hefur því að nokkru leyti verið falið opinbert vald sem felst m.a. í ákvörðunum um opinberar greiðslur til bænda, útreikningi, afgreiðslu og eftirliti með framkvæmd þeirra.“

Öllu þessu finnst mér að þurfi að halda til haga, því í raun og veru skarast þarna hagsmunir, má segja, og í því felst auðvitað gagnrýni Ríkisendurskoðunar. Þá er í niðurstöðum skýrslunnar bent á að hvorki í lögum né samningum ráðuneytisins við Bændasamtök Íslands sé kveðið á um að samtökin séu bundin af ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum upplýsingalaga við framkvæmd verkefna. Þess vegna var það mat Ríkisendurskoðunar að samtökunum bæri að gæta að ákvæðum laganna við framkvæmd verkefnanna. Í skýrslunni eru einnig rakin helstu verkefni sem Bændasamtök Íslands sinna samkvæmt samningi Matvælastofnunar við Bændasamtökin frá árinu 2010.

Ég vil taka fram að ég tel að Bændasamtökin hafi sinnt þessu verkefni af stakri prýði, en það er eðlilegt að Ríkisendurskoðun geri athugasemdir við þessa tilhögun mála. Skýrslu Ríkisendurskoðunar var fylgt eftir með Skýrslu um eftirfylgni: Útvistun opinberra verkefna til Bændasamtaka Íslands í mars 2014 og er hægt að kynna sér báðar skýrslunnar á vef þeirrar stofnunar. Það kemur fram í frumvarpinu að ráðuneytið hefði brugðist við athugasemdum Ríkisendurskoðunar m.a. með samningum við Bændasamtökin um verkefni samkvæmt búvörulögum og búvörusamningum og þá gerðu Bændasamtök Íslands og Matvælastofnun samning um verkefni í umboði Matvælastofnunar.

Eins og hér hefur komið fram er markmið frumvarpsins að bregðast við þeirri gagnrýni sem var sett fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar og um leið að einfalda framkvæmd búvörulaga þannig að stjórnsýsluverkefni sem tilgreind eru í ákvæðum laganna séu í hendi eins aðila, sem sé undirstofnunar ráðuneytisins. Frumvarpið er því hluti af öðrum áfanga samkomulags ráðuneytisins og Bændasamtaka Íslands um að flytja stjórnsýsluverkefni frá Bændasamtökunum til undirstofnana ráðuneytisins. Frumvarpið snertir fyrst og fremst starfsemi Bændasamtaka Íslands og starfsemi Matvælastofnunar, en þá snertir frumvarpið einnig bændur og þá einstaklinga, lögaðila og stofnanir, sem eiga samskipti við Bændasamtök Íslands og Matvælastofnun vegna stjórnsýsluverkefna samkvæmt ákvæðum búvörulaga.

Verði frumvarpið að lögum mun það hafa áhrif á starfsemi Bændasamtaka Íslands sem hafa sinnt stjórnsýsluverkefnum en með flutningi verkefnanna verða gerð skýr skil á milli stjórnsýsluverkefna og hagsmunagæslu. Þykir mér rétt að undirstrika það. Einnig mun samþykkt frumvarpsins hafa áhrif á starfsemi Matvælastofnunar, enda er gert ráð fyrir að stofnunin muni framvegis sinna þeim stjórnsýsluverkefnum sem Bændasamtökin hafa áður sinnt. Hér kemur fram að stofnuninni verði heimilt að ráða þá starfsmenn Bændasamtakanna sem sinnt hafa stjórnsýsluverkefnum. Ég held að það sé mjög gott að taka þetta fram, því það er auðvitað þekking til staðar hjá þeim aðilum sem hafa sinnt þessari vinnu.

Samkvæmt búvörulögum heldur Matvælastofnun utan um beingreiðslur vegna sauðfjár- og mjólkurframleiðslu, en Bændasamtök Íslands hafa sinnt þessum verkefnum síðustu ár samkvæmt samningi þar um. Samkvæmt upplýsingum frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti hefur framkvæmdin á undanförnum árum verið á þann veg að ráðuneytið hefur greitt Bændasamtökum Íslands þóknun fyrir að annast þessi stjórnsýsluverkefni og sú þóknun hefur byggst á heildarupphæð beingreiðslna einstakra viðfangsefna í fjárlögum sem samtökin hafa annast greiðslu eða ráðstöfun á.

Samkvæmt núgildandi samkomulagi fyrir árið 2015 er gert ráð fyrir að þóknunin nemi 59 millj. kr., en sú fjárhæð er síðan dregin frá heildarbeingreiðslum á viðkomandi fjárlagalið. Það er ekki gert ráð fyrir miklum breytingum á þessum umsýslukostnaði fyrir næsta ár og verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir því að sama upphæð, 59 millj. kr., færist yfir til Matvælastofnunar vegna flutninga á þessu stjórnsýsluverkefni.

Ég vil í lokin fagna frumvarpinu og tel að það mæti þeirri almennu gagnrýni sem hefur komið fram í þjóðfélaginu á stjórnsýslulegar ákvarðanir og hagsmunagæslu þegar miklir fjármunir eru annars vegar og þætti vænt um að hv. þingmenn hugsuðu það vel og lengi.