144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

framleiðsla, verðlagning og sala búvöru o.fl.

694. mál
[18:18]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir ræðu hennar og kem hér einungis upp til þess að segja eins og hv. þingmaður að ég fagna framkomu þessa frumvarps, það er löngu tímabært. Ég tel mig hafa ákveðna þekkingu á því að Bændasamtökin hafi í langan tíma beðið eftir því að vera hreinsuð af þeim grun um að misfara með opinbera fjármuni eins og oft hefur verið látið liggja að í opinberri umræðu. Hv. þingmaður nefndi réttilega að í skoðunum Ríkisendurskoðunar hefur aldrei neitt slíkt komið upp eða nokkur vafi verið uppi um það.

Við ágæta ræðu hv. þingmanns held ég að megi bæta að menn þurfa að kunna svolítið söguna í þessum efnum. Bændasamtökin eru sett saman úr þremur einingum. Þau urðu til árið 1995 þegar Búnaðarfélag Íslands, sem á árum áður var hálfgildings ríkisstofnun, sameinaðist Stéttarsambandi bænda og þá voru verkefni framleiðsluráðs landbúnaðarins, sem var raunar að sama skapi hálfgildings ríkisstofnun eða framkvæmdastofnun á sviði landbúnaðarmála, flutt árið 1999 til Bændasamtakanna. Því liggja þessi verkefni þar inni.

Ég ætla ekki að spyrja hv. þingmann hér í andsvari við ræðu hennar heldur vildi ég einungis árétta þessa forsögu um leið og ég tek undir með hv. þingmanni að það er framfaraskref að gera skýran aðskilnað þarna á milli og fleiri slík skref þurfum við að taka í framhaldi af þessu.