144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

framleiðsla, verðlagning og sala búvöru o.fl.

694. mál
[18:20]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir orð hv. þingmanns um að við þurfum að horfa til fleiri þátta og stofnana þannig að framkvæmd og eftirlit sé ekki á sömu hendi. Ég þekki það líka ágætlega að Bændasamtökin voru ekkert endilega yfir sig hrifin að hafa þessi verkefni hjá sér, hv. þingmaður kom inn á forsögu þess að þau tóku þau að sér. Þau hafa verið með verkefnin í fanginu en ekki endilega vegna þess að þau hafi ásælst þau til að hafa tekjur af þeim, það er ekki þannig. En auðvitað varð skýrsla Ríkisendurskoðunar til þess að ýta við því að koma fram þessum aðskilnaði og koma verkefnunum undir eftirlitsstofnun ráðuneytisins, Matvælastofnun, eða í þann farveg. Ég tel að það hafi unnist mjög vel úr þessu og það er líka ekkert gott fyrir bændastéttina að sitja undir ósanngjarnri gagnrýni varðandi þessa hluti. Ég tel að það sé nú allt of oft þannig að bændur sitji undir ósanngjarnri gagnrýni og það er gott að umbúnaður sé orðinn þannig að ekki sé hægt að hafa uppi þá gagnrýni að þeir sjálfir séu að fá tekjur af því að sinna framkvæmd (Forseti hringir.) í þessum málum.