144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

framleiðsla, verðlagning og sala búvöru o.fl.

694. mál
[18:23]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Forseti. Ég þakka umræðu um þetta mál og vil koma hingað upp til þess að árétta að það er rétt sem fram kom hjá þeim hv. þingmönnum sem hér hafa tekið til máls, að fyrirkomulagið hefur verið nánast án aðfinnslna, verið mjög hagkvæmt fyrir ríkisvaldið, en vegna þeirra ábendinga sem hafa ítrekað komið fram hjá Ríkisendurskoðun um hver nákvæmlega staða bændasamtakanna sé varðandi stjórnsýslulöggjöfina og upplýsingalöggjöfina þá er mjög skiljanlegt að Bændasamtök Íslands, að þeirra frumkvæði, vilji losna við þetta verkefni til þess að skýra aðskilnaðinn betur. Við viljum gjarnan stíga það skref til þess að það verði skýrt.

Ég man eftir því í skýrslunni frá 2011, þegar blásið var til mikillar sóknar gegn bændasamtökunum á síðasta kjörtímabili af hálfu síðustu ríkisstjórnarflokka, að fulltrúi Ríkisendurskoðunar kom á fund atvinnuveganefndar þáverandi og þegar var búið að fara yfir skýrsluna var ekki margt bitastætt í henni annað en þetta, sem við erum að bregðast hér við, og þá viðurkenndi viðkomandi fulltrúi að það væri víðar pottur brotinn í verkefnum sem þó væru hjá ríkisstofnunum, til að mynda Barnaverndarstofu sem ég man skýrt eftir. Það er rétt að þetta hefur verið unnið mjög samviskulega og framkvæmt mjög vel, en það er hins vegar bæði skynsamlegt og nútímalegt að höggva á þann hnút sem er þarna á milli, aðskilja þetta.

Varðandi andsvar hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar vildi ég bæta því við, og vona að viðkomandi þingmaður heyri mál mitt, að þessum skertu og ónýttu beingreiðslum hefur verið ráðstafað undanfarin ár af framkvæmdanefnd búvörusamninga og þeir staðfesta síðan þær ákvarðanir og þeim hefur verið ráðstafað til markaðssetningar á kindakjöti. Bændasamtökin hafa ráðstafað skertum og ónýttum beingreiðslum í gegnum samstarfsvettvang samtakanna, Landssamtaka sauðfjárbænda og Landssamtaka sláturleyfishafa um málefni sauðfjárræktar, þ.e. í gegnum Markaðsráð kindakjöts. Það er mat okkar að betra sé að hafa nánari fyrirmæli um ráðstöfun skertra og ónýttra beingreiðslna og því er lagt til í 3. gr. að ráðherra verði heimilt að mæla fyrir um ráðstöfun beingreiðslna með reglugerð. Í henni verði þá mælt fyrir um til hvaða verkefna í sauðfjárrækt beingreiðslunum verði ráðstafað og hvaða opinbera aðila verði falið að ráðstafa fjármununum í samræmi við markmið um framleiðslu sauðfjárafurða eins og þeim er lýst í 36. gr. laganna, hvort sem þeim fjármunum verður ráðstafað til markaðsaðgerða eða annarra verkefna sem nýtast muni greininni sem best. Það er því mat okkar, verði frumvarpið að lögum, að ráðstöfun ónýttra og skertra beingreiðslna verði gegnsærri og skýrari. Þetta kemur fram í skýringum við 3. gr. í frumvarpinu.

Að því loknu þakka ég þingmönnum fyrir góða umræðu um þetta mál.