144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[15:25]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi að vera komin fram yfir dagsetningar á innleiðingu á tilskipun er það ekki í fyrsta skipti sem við förum óvart aðeins fram yfir frest á innleiðingu. Það eru ofboðslega mörg mál sem við förum fram yfir á og mörg mál sem bíða hvað það varðar. Ég held að það sé enginn stór skaði skeður þótt þetta mál bíði fram á haust, m.a. í ljósi þess að verið að tala um að lengja höfundarétt á verkum þ.e. höfundarétt eftir dauða höfundar, úr 50 árum í 70 ár eftir dauða höfundar. Ég held því að menn snúi sér ekkert við í gröfinni þótt þeir þurfi að bíða fram á haust. (Gripið fram í: Þeir eru dauðir.) Nákvæmlega, þeir eru dauðir, það er nefnilega málið.

Þetta er ekkert annað en „corporatism“, þetta er Walt Disney eða Mikka mús-dæmið, þ.e. eftir dauða höfundarins, Walt Disney, er einkaleyfi á Mikka mús og öllu því enn þá til staðar. Menn hafa grínast með lengdina á höfundaréttinum, að hann verði árafjöldinn frá því að Walt Disney dó plús eitt ár. Það verður alltaf lengdin á höfundarétti, alla vega meðan fjölmiðlasamsteypur vestan hafs hafa það vald sem þær hafa. Þær eru að missa það, Google er auðvitað komið o.s.frv. En alltaf þegar svona umskipti verða, þegar það verður tæknibylting, er það eins og með prentbyltinguna, Luther hefði aldrei getað farið af stað nema af því að prinsarnir í Þýskalandi studdu hann. Þeir vildu fá gullið úr kaþólsku kirkjunni og sparka ægivaldinu burt. Þessi bylting er meðal annars studd af Google, ekki endilega friðhelgisvinkillinn en upplýsingafrelsisvinkillinn, hann er studdur af Google og stórum aðilum þar og síðan eru það náttúrlega öll þessi nýju „network“, Uber, Airbnb, Amazon o. fl. Þeir aðilar eru svo stórir, þannig að pólitíkin, (Forseti hringir.) þessi upplýsingatæknibylting er með ofboðslega stóra fjárhagslega hagsmuni á bak við sig. (Forseti hringir.) Við munum því alltaf fá …