144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

verkefnisstjórn rammaáætlunar.

656. mál
[16:09]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og öðrum þeim sem tekið hafa þátt í umræðunni hér. Ég fagna því sérstaklega að fram kemur í orðum hæstv. ráðherra að hún hefur mætur á því ferli sem rammaáætlun er og telur að hún eigi að fá að njóta sín, eins og hæstv. ráðherra orðar það, vegna þess að eins og hæstv. ráðherra segir réttilega erum við í raun og veru núna í fyrsta skipti að vinna samkvæmt lögunum.

Höldum okkur í eitt og hálft ár, segir hæstv. ráðherra. Þá skil ég það þannig að hún vilji að faghópar og verkefnisstjórn fái að ljúka vinnu sinni á árinu 2017 og leggi fram tillögu til hæstv. ráðherra sem hún leggur síðan fram eftir atvikum til úrvinnslu á Alþingi. Það er óendanlega dýrmætt að trufla ekki þetta viðkvæma ferli. Ég tek undir það sem komið hefur fram hjá öðrum þeim þingmönnum sem tekið hafa þátt í umræðunni að það er mjög mikilvægt að hæstv. ráðherra tali skýrt í þessum efnum, vegna þess að það eru ekki bara þingmenn stjórnarandstöðunnar sem goldið hafa varhuga við því að farið sé þvert á vilja verkefnisstjórnarinnar, heldur hefur verkefnisstjórnin sjálf sagt að hún hafi ekki fengið ráðrúm til að ljúka umfjöllun um þá kosti sem hv. atvinnuveganefnd leggur til að verði fluttir án meðmæla verkefnisstjórnarinnar í nýtingarflokk til endanlegrar flokkunar, til endanlegrar niðurstöðu.

Það er mjög afdrifaríkt fyrir rammaáætlun, það væri slæm arfleifð fyrir hæstv. umhverfisráðherra ef það yrði gert á hennar tíma að fara svo á svig við rammaáætlunarlögin og að setja í raun verkefnisstjórnina af, sem starfar undir forustu hæstv umhverfisráðherra, í þeim skilningi að ekki væri biðlund til þess að bíða eftir því að hún lyki starfi sínu.

Stundum er talað um eitt og hálft ár, fram til vors 2017. (Forseti hringir.) Ég held að það sé verulega mikilvægt að nýta þann tíma til þess að tryggja meiri líkur á sátt um (Forseti hringir.) niðurstöðuna.