144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

stefna í friðlýsingum.

658. mál
[16:27]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra segir að það hafi kannski verið heldur margar friðlýsingar á dagskrá og það þurfi kannski að hafa þær færri og vinna þær hraðar. Virðulegur forseti. Hvernig er hægt að hafa þær færri en enga? Hvernig er hægt að fækka friðlýsingum úr engri friðlýsingu? Það er staðan. Það er staðan, virðulegur forseti. Fullkomið metnaðar- og áhugaleysi í þessum málum og til algjörrar skammar.

Hæstv. ráðherra talar hér eins og hún sé áhugamaður úti í bæ að því er varðar fjármagn til friðlýsinga og utanumhalds til þess að gæta að svæðum og reka þau. Ætlar ráðherrann að berjast fyrir þessu fjármagni í næstu fjárlögum? Stendur til að tekið verði myndarlega á í þessu máli? Hvað er það sem hæstv. ráðherra boðar hér en annað almenn, velviljuð orð? Hvert er hið raunverulega markmið ráðherrans í málinu?

Það er gott þegar hæstv. ráðherra talar um að hún mundi heldur vilja friðlýsa dálítið stærri svæði en þau sem eru á listum, samþykktum þingsályktunum þingsins, Alþingis Íslendinga. Nei, hún vill hafa svæðin svolítið stærri. Hvað svæði eru það, virðulegur forseti, sem hæstv. ráðherra er að tala um? Er það þjóðgarður, einn samfelldur þjóðgarður á hálendi Íslands? Spennandi. Það væri flott. Við erum til í það, ég er til í það. Er það það sem hæstv. ráðherra ætlar að boða? Er það það sem hæstv. ráðherra finnst mátulegt til þess að hæstv. ráðherra setji nú undir sig hausinn og fari í það að friðlýsa eitthvað — eitthvað á Íslandi?