144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[19:19]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni góða og yfirgripsmikla ræðu. Ég hef staðnæmst við það í frumvarpinu með hvaða hætti því er skilað hér inn af hálfu ráðuneytisins því að það kemur fram að sú nefnd sem fékk það verkefni að setja eða vinna drög að frumvarpinu átti að fara yfir allnokkra þætti, yfirfara fjárhæðir stjórnvaldssekta, hvort hækka ætti þær fjárhæðir, hvort ástæða væri til að setja heimildir í lög til að veltutengja sektir og hvort ástæða væri til að styrkja heimildir laga til að refsa lögaðilum fyrir brot á lögunum. Í öllum tilvikum kemst nefndin að því að það skuli gert og gerir tillögur um lagabreytingar þar að lútandi í frumvarpinu sem mér líst almennt séð vel á.

Það sem stingur hins vegar í augu er að meðal þess sem nefndinni var falið að skoða var líka hvort setja ætti reglur um uppljóstrun, eða það sem é ensku heitir „whistle blowing“, í löggjöf. Nefndin afgreiðir það með mjög snaggaralegum hætti svo að ekki sé nú meira sagt, eða ráðherrann, í greinargerðinni, en þar segir:

„Nefndin skoðaði löggjöf um uppljóstrun í Danmörku, Bretlandi, Liechtenstein og á Möltu. Eftir þá skoðun og með hliðsjón af því að í Noregi og Svíþjóð er nú unnið að lagabreytingum um að taka upp ákvæði tilskipunar 2013/36/ESB um uppljóstrun taldi nefndin að bíða ætti með að leggja til lagabreytingar hér á landi og fylgjast með þróun mála hjá nágrannalöndunum.“

Ég vil spyrja þingmanninn: Hver er skoðun hennar á þessu? Það er rík ástæða til þess að í lögum séu ákvæði (Forseti hringir.) sem vernda uppljóstrara þegar um er að (Forseti hringir.) ræða brot fjármálafyrirtækja. Ég vildi þess vegna spyrja þingmanninn hver er skoðun hennar á þessu að nefndin með þessum hætti skili auðu í ljósi (Forseti hringir.) skipunarbréfsins sem hún starfaði eftir.