144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[19:21]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er þetta með þennan eina þátt sem okkur finnst skipta miklu máli einmitt núna, sérstaklega þegar við höfum verið að glíma við að fá upplýsingar að utan og þjóðin kallar eftir að við eigum að kaupa o.s.frv. Þetta er svolítið sérstakt, eins og þingmaðurinn bendir á, að hér sé skilað auðu. Hæstv. ráðherra sagði að von væri á máli um þetta í haust. Hvers vegna það er ekki komið lengra er í raun óskiljanlegt í ljósi þess að við höfum auðvitað verið að fjalla um þennan þátt málsins, þ.e. að fá gögn sem varpað geta ljósi á faldar fjárhæðir á ýmsum stöðum. Þá er afar sérstakt að ráðherra skuli taka við málinu svona eins og það er hér í staðinn fyrir að búa þannig um það að við höfum tæki og tól til að takast á við og nýta þegar augljóslega er unnið gegn almannahag eins og gerðist í bankahruninu. Hér vantar að girða fyrir það.

Stundum, af því hér er talað um að fylgjast með þróun mála í nágrannalöndunum, viljum við sem þjóð vera í fararbroddi. Í ljósi þess að við erum einna stærst hvað varðar gjaldþrot þjóðar, sem næstum varð, þá eigum við líka að vera í fararbroddi hvað þetta varðar og innleiða þetta. Við eigum ekki endilega að þurfa að bíða eftir því að skoða og sjá hvað gerist erlendis.