144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[19:30]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir andsvarið. Mér fannst áhugavert að heyra það sem hann sagði um Svíþjóð, því að eins og ég les þetta hér mundi ég halda — vissulega er verið að tala um að taka upp ákvæði ákveðinnar tilskipunar ESB um uppljóstrun, en — nú geri ég eins og ráðherrar gerðu kannski hér í dag — ef það er svo veit hv. þingmaður það þá hvað það er í rauninni sem út af stendur varðandi þessa tilteknu ESB-löggjöf hjá Svíum, ef þetta hefur verið í lögum í áratugi, eins og hv. þingmaður sagði að þannig væri það? Mér þætti áhugavert að vita það. Þá þurfum við ekki endilega að bíða í því ljósi, þ.e. þetta hefur verið framkvæmt þó að þessi tiltekna ESB-tilskipun sé þarna undir.

Varðandi sektarákvæðin, þ.e. hvort vera eigi hámark eða hvort þetta eigi að vera frjálst. Ég hef í sjálfu sér kannski ekki velt því fyrir mér hvað það gæti þýtt ef Fjármálaeftirlitið hefði algerlega frjálsar hendur um það að ákveða stjórnvaldssekt. Ég hallast svona frekar að því að hafa einhverja tölu inni af því að mér finnst vera tekið utan um það með þeim hætti að það mætti tvöfalda sektina o.s.frv. Ég held því að verið sé að reyna að ná utan um það að þær séu að minnsta kosti þannig að þær komi verulega við, annars eru þær marklausar. Svona í fyrsta kasti held ég að minnsta kosti — það kemur kannski eitthvað annað fram í umfjöllun hjá nefndinni að sé betra.