144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[15:31]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þetta innlegg frá hv. þingmanni.

Evrópuráðið hefur tekið á réttindum uppljóstrara í nokkrum skýrslum. Sú skýrsla sem ég vísaði til og var flutt að frumkvæði hollensks þingmanns á rót að rekja í upplýsingum um njósnir á vegum NSA, bandarísku leyniþjónustunnar, og sannast hefur að hefur geymt upplýsingar og safnað upplýsingum, ekki bara um Bandaríkjamenn heldur um okkur öll nánast sem erum í samskiptum við vefmiðlana, Google, og hvað það nú heitir.

Þetta hefur vakið mikinn óhug hjá öllu frjálslyndu fólki, bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu. Síðan er hitt, og það er rétt sem hv. þingmaður segir að Evrópuráðið lætur mannréttindi til sín taka, að sitthvað sem hefur verið að koma fram í dagsljósið og snýr að mannréttindum okkar á rót að rekja til uppljóstrana Snowdens. Það var þess vegna sem þessi hollenski þingmaður hafði gengist fyrir opnum fundum með Snowden. Hann hafði óskað eftir því að fá fulltrúa leyniþjónusta í Bretlandi og Bandaríkjunum til að mæta á samsvarandi fundi hjá Evrópuráðinu, opnum fundum, til að ræða þessi mál. Því erindi hafði aldrei verið svarað.

Þá var boðið upp á lokaða fundi um þessi mál með þingmönnum og Evrópuráðinu. Því var heldur ekki svarað og þau litlu svör sem bárust voru svona til höfnunar. Það er í því ljósi sem umfjöllunin var um einstaklinga á borð við Edward Snowden, hvað við gætum gert til að vernda fólk sem kæmi fram með upplýsingar sem (Forseti hringir.) gögnuðust okkur í mannréttindamálum.