144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[15:37]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það hefur verið góð umræða hér í gær og í dag. Það eru aðeins nokkur sjónarmið sem ég vil koma hér á framfæri. Við erum sem sagt að ræða frumvarp til laga um breytingar á lagaákvæðum um viðurlög við brotum og brotum á fjármálamarkaði o.fl. Þetta er bandormur þar sem er verið að herða sektir í nokkrum lagabálkum og eins er verið að gera þá breytingu að refsa megi lögaðilum fyrir brot á þeim lögum sem hér er verið að tala um. Það er verið að hækka sektir og hefur verið farið ágætlega yfir það, ég ætla ekkert að fara að tíunda það mikið meira, en nýmælið er að það er verið að veltutengja þær hvað varðar lögaðilana.

Í síðustu valdatíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, rétt undir lok þess tíma, í mars 2007, var lögum breytt, en þá voru ekki teknar inn tillögur sem þó lágu fyrir varðandi það að heimilt væri að veltutengja sektir. Nú átta árum og einu hruni á fjármálamarkaði síðar erum við loksins að fá þetta hér inn í löggjöfina. Ég vona að það þurfi ekki annað hrun til að við fáum inn vernd uppljóstrara.

Ég vil geta þess, hæstv. forseti, að á undanförnum árum hafa hér verið gerðar umfangsmiklar umbætur á löggjöf á fjármálamarkaði. Á þingi eru bæði þingmenn sem hafa bara verið þar í innan við tvö ár og svo hafa sum okkar ekki verið í nefndum sem hafa sérstaklega fjallað um þessi mál. Þetta er mjög flókin umgjörð eins og á við um margt annað í okkar samfélagi. Þarna undir eru fjölmargir lagabálkar og þar hafa verið gerðar breytingar sem er erfitt að hafa yfirsýn yfir. Ég verð að játa að þetta er sá málaflokkur sem er óþægilegast að upplifa að maður hafi ekki alveg nógu góð tök á. En það er ýmislegt til hjálpar og við þingmenn höfum ýmsar leiðir til þess að reyna að fullvissa okkur um að það sé verið að gera eins og hægt er.

Ég vil nefna í þessu samhengi að skrifstofa efnahagsmála og fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu gaf sl. haust út greinargerð um löggjafarvinnu á fjármálamarkaði á 144. löggjafarþingi. Hún gengur undir nafninu Umbætur á löggjöf á fjármálamarkaði. Þar kemur fram að þessar umbætur og breytingar sem verið er að gera eru til komnar vegna þeirra fjölmörgu ágalla sem komu í ljós við hrun fjármálakerfisins árið 2008 og voru dregnir fram í dagsljósið í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, skýrslum ráðherra og ritum Seðlabanka Íslands. Svo hafa verið unnar umbætur á grundvelli endurskoðunar á evrópsku regluverki en þær breytingar er okkur skylt að innleiða vegna EES-samningsins. Sumu af þessu evrópska regluverki hefur verið breytt vegna alþjóðlegs samkomulags, t.d. á vegum Basel-nefndarinnar. Fjármálamarkaðurinn starfar því í mjög flóknu umhverfi. Segja má að það hafi orðið mikil þróun á fjármálaafurðum og af því að freistnivandi er mikill þar sem sýslað er með fjármuni og ávöxtun getur orðið geigvænleg þegar mikil áhætta er tekin hafa aðilar séð ástæðu til þess að búa til flókið regluverk, skýrar og strangar reglur sem fara ber eftir og skýr ákvæði um refsingar.

Hvað kom í ljós þegar við þurftum að taka inn í dómskerfið fjöldann allan af málum sem tengdust brotum á fjármálamarkaði? Það þurfti að þjálfa upp starfsfólk sem hafði getu til þess að rannsaka málin því að þau eru flókin og krefjast sérþekkingar og auðvitað var leitað til fólks sem hafði þá þekkingu. Síðan hafa dómstólarnir þurft að aðlaga sig þessum málum og dómarar þurft að afla sér þekkingar og ráðgjafar til þess að geta fjallað um málin.

Ég vil leyfa mér að fullyrða að á Alþingi hafi ekki verið fullnægjandi skilningur á veikleikum kerfisins. Það kann að vera að það hafi verið hjá einstökum þingmönnum en almennt gerði fólk sér ekki grein fyrir að ástandið væri of bágborið. Það segi ég ekki til þess að fella áfellisdóma yfir þeim þingmönnum sem hér hafa setið á undan mér enda viðurkenni ég fúslega, eins og ég gerði í upphafi ræðu minnar, að það er ekkert auðvelt að henda reiður á og halda utan um reglur fjármálamarkaðarins. Þess vegna ber að líta til þeirra sem skilja hvað er að gerast. Hverjir skilja fjármálamarkaðinn best? Það eru þeir sem starfa á honum, sem greina hvað er að gerast, sem eru gerendur á þeim markaði og hafa mun betri innsýn en allir aðrir í það sem þar er að gerast.

Það kemur einmitt fram á bls. 3 í þessari ágætu greinargerð sem var gefin út af ráðuneytinu, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir bætt fjármálaeftirlit og mun stífari lagaumgjörð en fyrir hrun fjármálakerfisins er nauðsynlegt að hafa það hugfast að löggjöf á þessu sviði mun aldrei ná að koma í veg fyrir óstöðugleika á fjármálamarkaði nema þá aðeins að fjármálaþjónustu verði sniðinn svo þröngur stakkur að hún geti með engu móti sinnt meginhlutverkum sínum.“

Eins og við vitum komum við ekki í veg fyrir brot á lögum með því að setja lög — ég meina, lögin eru gjarnan brotin. Auðvitað er best að það sé sem sjaldnast og að löggjöfin sé þannig sniðin að hún sé ekki of stíf heldur til þess fallin að fólk fari að lögum. Hérna er einmitt bent á að það sé mjög erfitt að hemja þennan markað, þar séu miklir peningar, flókin sérfræðiþekking og að við búum í mjög flóknu alþjóðlegu samfélagi þar sem þurfi að vera með allra handa tegundir af fjármálaafurðum til þess að viðskipti geti fari fram og slíkt.

Það skiptir því meginmáli að þeir sem starfa í kerfinu, skilji kerfið og viti hvað er að gerast þar, einstaklingar með ábyrgðartilfinningu og siðferðiskennd, eigi vissa vernd og trygga ef þeir velja að ljóstra upp um það sem þar fer fram. Það hefur orðið tilefni til nokkurra ræðna hér, áhyggjur af því, en það er ekki gagnrýni á innihald frumvarpsins. Það kann vel að vera að það komi fram við nánari vinnslu í nefndinni, eins og oft gerist, og gerðar verði breytingar og lagfæringar, en við þingmenn höfum áhyggjur af því að einn mikilvægan þátt vantar í frumvarpið. Það segir í greinargerðinni, sem ég hef verið að vitna í, undir liðnum Annað á bls. 19, um styrk viðurlagaákvæði, að nefnd sé að störfum, eins og kemur líka fram í frumvarpinu, að kanna hvort ástæða sé til að taka upp ákvæði um uppljóstrun og hvort ástæða sé til að veita eftirlitsaðilum heimild til að veltutengja fjárhæðir sekta. Veltutengingin er komin en ekki vernd uppljóstrara.

Nú mætti segja að það kæmi fram að eitthvað sé verið að vinna að þessu á vettvangi Evrópusambandsins, en það er engin ástæða til bíða þess því að það má líka uppfæra þau lög. Það má leita fyrirmynda. Hér hafa þingmenn eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson vísað í fyrirmyndir hjá öðrum ríkjum. Ég vil ekki síst, hæstv. forseti, leggja áherslu á að þetta fari fram í meðförum þingsins á málinu. Hvað er næsta mál hér á dagskrá? Það á að veita hæstv. fjármálaráðherra heimild til að auka áhrif hans á eignarhlut ríkisins í fjármálakerfinu. Í því frumvarpi sem við ræðum hér síðar í dag verður farið yfir hvernig hann eigi að halda á þessum hlutum og verið að heimila honum sölu á þeim. Það er auðvitað ákveðin umgjörð utan um það en hún er ekki nógu skýr að mati margra hér. Ef við hugsum um að búið er að samþykkja rannsókn á einkavæðingu bankanna í upphafi 21. aldar, það var samþykkt í lok síðasta kjörtímabils, þá er sú rannsókn ekki farin af stað, en það er komið fram frumvarp sem á að heimila sömu flokkum að einkavæða bankana. En það er ekki vilji til þess að setja inn ákvæði um vernd uppljóstrara. Talandi um „whistleblowers“ á ensku þá hringir þetta ákveðnum bjöllum, það fara flautur að flauta þegar verið er að auka hið pólitíska vald yfir fjármálakerfinu, þeim hluta þess sem lýtur að eignarhaldi fyrir hönd ríkisins. Á sama tíma er ekki vilji til þess að tryggja almenning og þá sem eiga hagsmuna að gæta með beinni hætti að fjármálakerfinu. Það er ekki verið að auka traust á kerfinu með því að auka vernd við uppljóstrara.

Ég vil að lokum, hæstv. forseti, hvetja hv. efnahags- og viðskiptanefnd til þess að skoða þessi mál rækilega og afgreiða frumvarpið ekki fyrr en búið er að koma þessu ákvæði inn. Það er grundvallaratriði til þess að skapa traust á kerfinu og til þess að koma í veg fyrir að þar fái að viðgangast allra handa starfsemi og aðgerðir sem eru ekki viðeigandi í fjármálakerfi og til þess fallnar að ógna hagsmunum heils þjóðfélags. Við þekkjum þá sögu og við viljum ekki endurtaka hana. Við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að upplýsingar um fjármálamarkaðinn séu sem gegnsæjastar.