144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[20:20]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er mjög sammála hv þingmanni og vil síst af öllu að einhver taki orð mín þannig að ég vilji ekki spara í ríkisrekstrinum. Við höfum talað um það áður í ræðustól, ég og hv. varaformaður fjárlaganefndar, að við erum sammála um einn hlut og það er að það þarf aga í ríkisfjármálum. En sparnaður má náttúrlega ekki að koma niður á vinnubrögðum, gagnsæi og því að við gerum hlutina rétt.

Mig langar til að hv. þingmaður rifji kannski upp fyrir mér hvernig þetta var, vegna þess að mér finnst ég geta lesið það út úr frumvarpinu að það sé afleiðing af einhverju sem var lagt til í fjárlagafrumvarpinu, en var það ekki einmitt öfugt? Var það ekki þannig að í fjárlagafrumvarpinu var ekki gert ráð fyrir neinum fjármunum til Bankasýslunnar og stjórnarmeirihlutinn varð að setja þá inn vegna þess að það var ekki búið að leggja fram þetta frumvarp, svolítið í átt við flutninginn á Fiskistofu, menn ákveða bara eitthvað en hafa engar heimildir?