144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[22:20]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp fjármálaráðherra um meðferð og sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Ég hef tekið eftir því í dag að fjármálaráðherra virðist ekki vera í húsi, það fer þá lítið fyrir honum, ég ætla ekkert að fullyrða um það, í það minnsta er hann ekki hér í salnum. Kannski má skýra áhugaleysi hans á umræðunni með því að ekki virðist vera stuðningur við málið í hinum ríkisstjórnarflokknum, Framsóknarflokknum.

Ég ætla ekki að láta blekkjast af því. Rétt eins og formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Árni Páll Árnason, fór yfir áðan er ekki ástæða til að treysta því að þetta frumvarp verði ekki að lögum. Við höfum fengið að hlusta á ýmis upphlaup Framsóknarflokksins, sem virðast notuð til heimabrúks, en það verður heldur lítið úr þeim þegar í þingsal kemur.

Við höfum líka upplifað það að Framsóknarflokknum er ekki óheilagt að svíkja stóru loforðin, 300 milljarðarnir frá hrægömmunum sem urðu 80 milljarðar frá skattgreiðendum, afnám verðtryggingar. Ég man ekki til þess að eitt einasta frumvarp hafi verið lagt fram í þá veruna. Það virðist vera mjög lítið um efndir þar og hæstv. fjármálaráðherra er ekki hrifinn af því litla sem á að standa eftir af því loforði.

Þá komum við að andstöðunni við matarskatt þar sem allur þingflokkur Framsóknarflokksins gerði fyrirvara við fjárlagafrumvarpið og var rekinn heim snautlega með loforðum um mótvægisaðgerðir sem hafa sýnt sig að eru engar, aðeins orð á blaði. Þá hafa í þeim hörðu kjaradeilum sem nú eru á vinnumarkaði bæði formaður fjárlaganefndar sem og sjálfur hæstv. forsætisráðherra lýst yfir stuðningi við 300 þús. kr. lágmarkslaunakröfuna, en þess sér hvergi stað í athöfnum þeirra að þau meini neitt með því.

Síðan fór Framsóknarflokkurinn á flokksþing og samþykkti að Landsbankinn skyldi vera í eigu ríkisins sem samfélagsbanki og að Bankasýslan skyldi fá að halda áfram störfum. Í ljósi þess lista sem ég hef lesið upp hér er engin ástæða fyrir okkur í þinginu til að trúa því sérstaklega umfram önnur fyrirheit flokksins. Þó að það sé vissulega lokkandi, hæstv. forseti, að láta vera að tjá sig um málið nú og treysta því að það sofni í nefnd, þótt það sé í fjárlaganefnd þar sem hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar myndar meiri hluta, og það sé vissulega freistandi að fara heim og leggja sig til þess að vera vel undirbúinn fyrir nefndadaginn á morgun, þá treysti ég því ekki að Framsóknarflokkurinn standi við fögru fyrirheitin frá flokksþingi.

Það liggur svo sem fyrir stefna þar sem kveðið er á um að ekki eigi að selja meira en 30% hlut í Landsbankanum, en það er augljóst að Framsóknarflokkurinn er í orði á móti því. Stóra breytingin er sú að í stað þess að Bankasýslan annist eignaumsýslu í fjármálafyrirtækjum ríkisins, eða hlut þeirra, og standi formlega að sölumeðferð er hæstv. fjármálaráðherra falið samkvæmt þessu frumvarpi að setja á laggirnar ráðgjafarnefnd sem hefur það hlutverk að tilnefna hæfa einstaklinga til setu í stjórnum fjármálafyrirtækja. Ráðherra á að bera sig upp við ráðgjafarnefndina varðandi stærri ákvarðanir sem tengjast meðferð eignarhalds og sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Svo þegar við förum að velta því fyrir okkur hvernig þessi ráðgjafarnefnd er til komin þá stendur hér:

„Í ráðgjafarnefnd um fjármálafyrirtæki í ríkiseigu eiga að sitja þrír einstaklingar og einn til vara, skipaðir af ráðherra án tilnefningar. Ráðherra skipar einn þeirra formann og ákveður þóknun nefndarmanna. Ráðuneytið skal leggja nefndinni til starfsaðstöðu og aðra þjónustu sem nefndin þarf á að halda.“

Þetta er lítil einkabankasýsla hæstv. fjármálaráðherra. Þá vil ég rifja upp að á síðasta kjörtímabili breyttum við lögum um Ríkisútvarpið. Stjórn Ríkisútvarpsins var falið meira faglegt hlutverk en einungis það rekstrarhlutverk sem hún hafði haft í þágildandi lögum. Ákveðið var að ráðherra ætti að skipa stjórn með tilnefningum frá ýmsum aðilum og síðan átti allsherjar- og menntamálanefnd að koma að því eftir fyrir fram settum reglum.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks líkaði það ekki. Þeim líkaði reyndar alveg aukin áhrif stjórnarinnar á dagskrá, en þar vildu þeir herða hin pólitísku tök og vildu að kosið yrði í stjórnina af Alþingi. Svo bitu þeir höfuðið af skömminni með því að svíkja samkomulagið, þannig að þeir hafa mjög sterkan meiri hluta í þeirri stjórn í dag. Það er svo merkilegt að hérna finnst þeim fínt að ráðherrar hafi þetta, hér er umsýsla og ákvarðanataka fyrir fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins og það finnst þeim fínt að hafa inni í ráðuneyti.

Nú er ég ekki að leggja til að Alþingi velji þetta í atkvæðagreiðslu í þingsal, en það má fara að velta fyrir sér hvort þessi ríkisstjórn sé sjálfri sér samkvæm í skipan mála.

Hv. þm. Árni Páll Árnason fór ágætlega yfir það hvernig hæstv. fjármálaráðherra hefur skipað félaga sína til verka. Það hefur svo sem ekkert komið fram hvernig hann hefur hugsað sér að gera þetta og það hefur ekki heldur komið fram af hverju það eigi ekki að vera tilnefningar í þessa ráðgjafarnefnd og af hverju hún ætti þá ekki að vera stærri. Þetta er hálfgert vandræðabarn því að Sjálfstæðisflokkurinn er í nafni hagræðingar að leggja niður stofnun sem gefur armslengd frá stjórnmálunum varðandi yfirumsýslu þessara fjármálafyrirtækja, Sjálfstæðisflokkurinn sem vildi ekki Bankasýsluna á sínum tíma, Sjálfstæðisflokkurinn sem greiddi atkvæði gegn stofnun Bankasýslunnar á sínum tíma. En Framsóknarflokkurinn, sem þráaðist aðeins við en sat síðan hjá og hefur síðan á flokksþingi lýst yfir sérstökum stuðningi við Bankasýsluna, er nú teymdur á asnaeyrunum út í þetta feigðarflan.

Það hefur komið fram í umræðunni vantraust á stjórnmálum og ég tilheyri flokki sem er ekkert undanskilinn því. En ríkisstjórnin sem er við völd í landinu og forustumenn hennar njóta ákaflega lítils stuðnings. Núna logar vinnumarkaðurinn í kjaradeilum og það er mikið áhyggjuefni hvernig hægt er að ná sáttum þar. Það sér ekki alveg fyrir endann á því hvernig á að ná niðurstöðu í þær kjaradeilur, sem eru í nánast öllum hreyfingum launafólks. Það er mikil óánægja vegna þess hvernig á að fara með arðinn af sjávarútvegsauðlindinni. Það er mikil óánægja með hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Það er mikil óánægja með hækkun matarskatts. Það má telja upp ýmislegt sem er mikil óánægja með og þá er lagt upp í þá ferð að auka pólitískt vald ríkisstjórnarinnar á fjármálafyrirtækjum í eigu ríkisins.

Enn eina ferðina fær maður á tilfinninguna að markmið forustumanna ríkisstjórnarinnar sé að ögra þjóð sinni og ganga svo langt að fólk í raun og veru dofni upp og hætti að veita mótþróa. Þetta er sjokkmeðferð, eins og Salómon fékk í bíómyndinni Stellu í orlofi. Það á að ofbjóða okkur svo mikið með brennivíni að við hættum að drekka, reyndar hefur þessi ríkisstjórn líka áhuga á að koma brennivíni í búðir.

Hæstv. forseti. Ég segi það að lokum að ég treysti því ekki að Framsóknarflokkurinn standi við stóru orðin nú frekar en í ýmsum öðrum yfirlýsingum síðastliðin ár. Ég lýsi yfir áhyggjum af því dómgreindarleysi sem þetta frumvarp ber vitni um. Ég vona svo sannarlega að það sofni í nefnd og ég vona svo sannarlega að með afli atkvæða komum við frumvarpinu þó inn í efnahags- og viðskiptanefnd, það verður fyrsti prófsteinninn á framsóknarmenn í þessu máli, hvort þeir standa í raun og veru með Bankasýslu ríkisins. Hún var til umfjöllunar í viðskiptanefnd á sínum tíma. Þar er hinn eðlilegi staður til að fjalla um mögulega niðurlagningu hennar, en þar virðist vera meiri pólitísk andstaða af hálfu Framsóknarflokks en í fjárlaganefnd. Þegar þetta mál verður afgreitt til nefndar, hæstv. forseti, munum við í atkvæðagreiðslu fá að sjá fyrstu merki þess hvort samþykktir flokksþings Framsóknarflokksins eru orð á pappír eða raunveruleg stefna flokksins.