144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[22:52]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, tvímælalaust, það er svar mitt. Hér stefnir allt að því að auka vald ráðherra á kostnað þingsins. Mér virðist, sem er alvarlegur hlutur, að þingmönnum í stjórnarliðinu finnist það sjálfsögð þróun.

Á sama tíma tala þeir um að það sé sjálfsagt að taka umræðuna inn í þingið, en mér virðist sem aðhald stjórnarþingmanna innan þingflokkanna sé mjög takmarkað, það sé helst eitthvert sprell í þinginu sem þeir telji vera aðhaldshlutverkið, en þegjandi og hljóðalaust færa þeir ráðherrunum æ meira vald.

Ég held að það sé ágætt að við sammælumst um það í minni hlutanum að fara að gera almennilega skrá yfir það vald sem þessi ríkisstjórn er að hrifsa frá löggjafanum yfir til framkvæmdarvaldsins.