144. löggjafarþing — 103. fundur,  11. maí 2015.

náttúrupassi.

[15:32]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef hugsað mér að leggja fyrirspurn fyrir hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra um náttúrupassann svokallaða, en til að rifja aðeins upp þá lagði hæstv. ráðherra loksins fram tillögu um náttúrupassa þegar ríkisstjórnin var búin að sitja í eitt og hálft ár, eða 9. desember sl. Það má segja að fjallið hafi tekið joðsótt og lítil mús hafi fæðst en því miður var hún andvana.

Þegar frumvarpið kom fram lögðust allir gegn því, sérstaklega ferðaþjónustan. Síðan gekk málið til nefndar 4. febrúar og 20. febrúar rann út umsagnarfrestur og komu margar umsagnir og flestallar neikvæðar. Steininn tók svo úr þegar formaður atvinnuveganefndar, hv. þm. Jón Gunnarsson, gaf í raun út fullkomið dánarvottorð á náttúrupassann í viðtölum um þetta mál. Það sem hann sagði meðal annars var að vegna þess hve mikill ágreiningur væri um frumvarpið eins og það lítur út þá væri ekki nokkur leið að vinna það eða fara með það í gegnum nefndina. Síðan er talað um að það sé verið að ræða aðrar leiðir, svo sem komugjöld, útfærslu á gistináttagjaldi, gjaldtöku af bílastæðum o.s.frv.

Virðulegur forseti. Eins og ég segi þá finnst mér að tíminn hafi verið ákaflega illa nýttur af hæstv. ráðherra til að koma þessu þarfa máli í farveg og í höfn vegna þess að hér við 1. umr. mátti skilja á fulltrúum allra flokka að mikil samstaða væri um að leggja eitthvert gjald á ferðamenn til að nota til að byggja upp ferðamannastaði, sem er mjög brýnt. Þess vegna segi ég: Það hefur verið gefið út dánarvottorð á frumvarp hæstv. ráðherra sem valdi, eins og ég sagði við 1. umr., langverstu leiðina, enda hefur það komið á daginn að nánast enginn mælir með þeirri leið.

Ég spyr því (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra: Hvað ætlar ráðherrann að gera (Forseti hringir.) í þessu máli? Hverjar verða tillögur hennar og ríkisstjórnarinnar um (Forseti hringir.) framhald þess?