144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

áherslumál ríkisstjórnarinnar.

[16:23]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þurfti að láta segja mér það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að stjórnarmeirihlutinn ætlaði að setja þetta mál á dagskrá núna þegar mest þörf er á því að menn stilli saman strengi sína og þegar menn í minni hlutanum hafa sýnt samstarfsvilja, boðið fram sáttarhönd til þess að takast á við mjög erfiða stöðu á vinnumarkaði, hvert er svar hv. stjórnarmeirihluta við því? Það er að koma með handsprengju inn í þingið, sem er þessi rammaáætlun, og henda henni inn í þingsalinn. Það er ekki bara ein tillaga sem búið er að afgreiða í verkefnisstjórn um rammaáætlun, heldur fjórar til viðbótar, þar af virkjunarhugmyndir sem ekki hafa farið í gegnum hið faglega ferli. Er það virkilega það sem þessi stjórnarmeirihluti heldur að þetta land þurfi núna, umræður í þinginu um eitt mesta deilumál samtímans? Það er engin furða (Forseti hringir.) að þessi ríkisstjórn njóti lítils sem einskis trausts í (Forseti hringir.) samfélaginu ef tímasetningarnar eru með þessum hætti, ef dómgreindin er (Forseti hringir.) jafn afspyrnuléleg og í þessu máli. Hneyksli.