144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[19:10]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hægt að taka undir það með hv. þingmanni að auðvitað var ekki til fyrirmyndar að vera með ófjármagnað fyrirtæki eins og Byr og SpKef á markaði. Um það flutti ég margar ræður og hafa líklega fáir gagnrýnt það jafn mikið og ég gerði á síðasta kjörtímabili. En það er ekki við Bankasýslu ríkisins að sakast. Það er ekki ástæða til að leggja niður Bankasýslu ríkisins vegna þess að menn fólu ekki henni nógu mörg verkefni á síðasta kjörtímabili. Þetta er alöfugsnúnasta hugsun sem ég hef nokkru sinni heyrt í þessum sal.

Hv. þingmaður verður líka að átta sig á staðreyndum mála varðandi Bankasýsluna. Það er hún sem ákveður sjálf hvernig hún greiðir atkvæði, t.d. varðandi kaupauka og afkastahvetjandi launakerfi. Hún hefur í tvígang greitt atkvæði gegn hækkun stjórnarlauna, ekki að beiðni ráðherra heldur vegna þess að það er í samræmi við eigendastefnu sem sett hefur verið með gagnsæjum hætti og með aðkomu allra flokka. Hæstv. ráðherra ætlar að afnema þá umgjörð.

Það er ekki orð að finna um það í frumvarpinu hvernig ákvarðanir verði teknar um beitingu valds ríkisins á hluthafafundum. Ef frumvarpið sem liggur nú fyrir þinginu, frumvarpið um bónusana, verður til dæmis að veruleika óbreytt, hvernig verður þá atkvæði ríkisins beitt á hluthafafundum? Munu menn styðja að það verði búið til bónusakerfi í viðkomandi banka eða ekki? Það er grundvallarspurning. Það er ekki orð um það í þessu frumvarpi.

Virðulegi forseti. Hin skaðlega sambúð íslenskra stjórnvalda og fjármálakerfisins sem gróf undan öllu því sem gott er í íslensku samfélagi áratugum saman er nokkuð sem við eigum ekki að endurvekja.