144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[19:14]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér leikur hugur á því að fá svolítið ágrip af því hjá hv. þingmanni hverjar þessar tillögur voru frá Bankasýslunni sem aldrei var farið eftir og hv. þingmaður segir að hafi leitt til 21 milljarðs kr. taps. Ég kannast ekki við að það hafi verið með nokkru móti farið öðruvísi að út frá neyðarlögunum gagnvart Sparisjóði Keflavíkur eða Byr. Samkvæmt neyðarlögunum þurfti fjármálaráðuneytið að koma að því fyrir hönd ríkisins þegar menn þurftu að grípa til þess á grundvelli neyðarlaganna að setja á fót nýja stofnun til að taka við eignum og skuldbindingum úr annarri sem var komin í þrot og ef ekki var þannig gengið frá málum að hún færi beint inn í aðra starfandi fjármálastofnun þá var slík stofnun sett á fót í kringum sparisjóðina nákvæmlega eins og var gert í kringum bankana. Í tilviki Byrs og Sparisjóðs Keflavíkur kom aldrei til þess vegna þess að þeir fóru á hausinn. Það náðist aldrei samkomulag við kröfuhafa um fjármögnun nýrrar einingar. Ný eining var aldrei sett á laggirnar og þess vegna komu þeir aldrei til Bankasýslunnar. Þess vegna langar mig til að spyrja: Hverjar eru tillögurnar sem Bankasýslan kom með og ekki var farið eftir?