144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[19:18]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var mjög fróðlegt svar. Það kemur í ljós að andlag þeirrar hörðu gagnrýni sem hv. þingmaður hefur veitt að Bankasýslunni og beinlínis sagt að ekki hafi verið mikið gegnsæið og ekki hafi verið mikill dugur af því að hafa þá stofnun vegna þess að ekki hafi verið farið að tillögum hennar — þegar hér er komið sögu kemur í ljós að þær tvær stofnanir sem hv. þingmanni hafa verið efstar í huga voru farnar á hausinn. Það er (Gripið fram í.) nákvæmlega þess vegna, af því að þær voru orðnar gjaldþrota, sem þær fóru ekki yfir til Bankasýslunnar.

Við skulum aðeins skoða hina sparisjóðina líka. Þetta var þannig að í gegnum Sparisjóðabankann átti ríkið miklar kröfur á sparisjóðina, þ.e. það átti kröfur á eina fimm sparisjóði sem voru töluvert háar, og þannig varð eignarhald ríkisins á sparisjóðunum til. Þegar Seðlabankinn var búinn að sortera eign sína á sparisjóðunum, sem Seðlabankinn hafði eignast í gegnum hin merku ástarbréfaviðskipti Sparisjóðabankans og Seðlabankans, þá fóru fimm þeirra yfir til Bankasýslunnar. Það voru ýmsir aðrir sem var einfaldlega ekki hægt að rétta við. Ég minni á Spron, ég minni á þessa tvo en það voru líka aðrar bankastofnanir sem áttu kröfur í þeim og eignuðust að verulegu leyti. Ég nefni t.d. Afl. Afl er ekki hjá Bankasýslunni. Það er allt önnur stofnun sem fer með það.

Þetta vildi ég nú segja við hv. þingmann vegna þess að ég tel að hann hafi skautað hérna ekki bara á hálum ís heldur á loftinu einu saman í allan dag. Það er rétt að rifja það líka upp fyrir honum að þegar frumvarpið um Bankasýsluna var fyrst lagt fram á sínum tíma var ekki minnst á sparisjóði. Það var bara gert ráð fyrir því að Bankasýslan vélaði fyrst og fremst með bankana, svo að það sé nú nefnt hérna. (GÞÞ: Nei, nei, nei.)