144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:22]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér finnast þau vinnubrögð slæm að kynna hér með munnlegum hætti úr ræðustól þá lögfræðilegu niðurstöðu þingsins að tillaga meiri hluta atvinnuveganefndar, sem snýst um að bæta virkjunarkostum við sem færðir verði úr biðflokki yfir í nýtingarflokk, þar sem stjórnarandstaðan viðrað hefur lögmætar efasemdir um að þessi tillaga standist lög að öllu leyti. Mér finnst náttúrlega ekki hægt að kynna hér mat Alþingis með munnlegum hætti úr ræðustól. Það er alveg ljóst að við munum þurfa svigrúm til að fara yfir þetta álit, fá lögfræðilegt mat á því hvort þetta standist lög, því að það er alveg á hreinu að það hafa margir lögfræðingar komið með þau sjónarmið að þarna séum við að minnsta kosti komin á grátt svæði hvað það varðar.

Herra forseti. Mér finnast þetta ekki vera vinnubrögð til eftirbreytni, mér þykir það miður að segja það. Þetta hefði mátt liggja fyrir fyrir umræðuna. Því tek ég undir þá kröfu sem hér hefur verið sett fram að gert verði hlé þannig að við höfum tækifæri til að fara yfir þennan rökstuðning og bera hann að þeim (Forseti hringir.) rökum sem við höfum þegar skoðað (Forseti hringir.)