144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:37]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kýs að draga þá ályktun vegna þess að svör hafa ekki borist við þráspurningum mínum um hvort einhver sáttafundur í þessu máli hafi átt sér stað, að hann hafi ekki átt sér stað, og mér finnst það athyglisvert í þessu augljósa deilumáli.

Nú kemur í ljós að ekki hefur heldur nein kynning farið fram við flokkana á úrskurði hæstv. forseta sem hann las upp hér áðan og hefði verið ærið tilefni til að halda slíka kynningu. Við ræðum þennan úrskurð undir liðnum fundarstjórn forseta í þeim takmarkaða ræðutíma sem þar er boðið upp á. Það blasa við óteljandi spurningar: Hefur rammaáætlun einhverja þýðingu lengur? Það er ein spurning. Hafa þessir verndarflokkar, biðflokkar, nýtingarflokkar einhverja þýðingu? Samkvæmt þessum úrskurði má draga þá ályktun að þeir hafi það ekki. Hafa veigamikil atriði í þingsköpum einhverja þýðingu? Samkvæmt þessum úrskurði má draga þá ályktun að þau hafi það ekki. Verður Hagavatnsvirkjun lögleg, ef virkjað verður þar á grunni breytingartillögu sem við erum að fara að ræða? Getur hæstv. forseti sagt að sú virkjun sé í samræmi við lög um vernd og orkunýtingu, ef farið verður í hana? Og ef við tölum um þingsköp, hæstv. forseti, (Forseti hringir.) ef við leggjum hér fram tillögu um að byggja til dæmis við Alþingishúsið, eins og stendur til, má ég þá leggja fram breytingartillögu við þá tillögu um að byggja einhver önnur hús líka? Væri það tækt? (Gripið fram í.) Já, á Siglufirði eða Eskifirði eða hvar sem er? (Forseti hringir.) Alls konar aðrar viðbyggingar? (Forseti hringir.) Verða það að vera viðbyggingar eða mega það vera hús? (Gripið fram í.)