144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[17:46]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil taka undir með þeim þingmönnum sem hér hafa talað. Það er í sjálfu sér ástæða til að fagna því að forseti hefur boðað til fundar, sem hefur margoft verið kallað eftir, með forseta þingsins og þingflokksformönnum. Er það vel þótt fyrr hefði mátt vera og hefði auðvitað verið skynsamlegast að gera það í upphafi umræðunnar. Það kom ekki fram hjá forseta þingsins fyrr í dag þegar ég spurði hvers vegna málið væri kynnt eins og það var gert, þ.e. forseti las fyrir þingheim í ræðustól Alþingis upp úr tveggja blaðsíðna skjali, álit sem varðar mál sem er eitt af því umdeildasta í þjóðfélaginu. Á meðan stöndum við frammi fyrir því að hingað koma ekki inn stór mál sem boðað var fyrir allnokkru að kæmu á næstu dögum, svo sem afnám hafta og fleira sem varða samfélagið mikið meira akkúrat á þessari stundu en að þröngva (Forseti hringir.) rammaáætlun í gegn.