144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[17:51]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með að það skuli vera búið að boða til fundar með þingflokksformönnum og hæstv. forseta klukkan hálfsjö, vegna þess að virkilega er þörf á slíkum fundi. Ég vona að á þeim fundi verði einnig farið yfir niðurstöður lögfræðinga umhverfisráðuneytisins og atvinnuvegaráðuneytisins, sem fjalla um þessi mál, og faglegt mat verkefnisstjórnar af því að nú hafa menn talað um að faglegt mat verkefnisstjórnar hafi farið fram um allar þessar virkjanir nema Hagavatn. En það er auðvitað ekki svo vegna þess að það er faglegt mat núverandi verkefnisstjórnar að fara þurfi yfir þær upplýsingar sem fram komu í umsagnarferli árið 2013 og skoða þau álitamál betur. Það er hið faglega mat verkefnisstjórnar sem nú starfar.