144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[19:52]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Þetta lítur svona út: Kallarnir vilja virkja og við hin eigum að hætta þessu væli. (Gripið fram í: Einmitt.) Ég ætla að væla hérna alveg fram eftir viku og þá næstu. (Gripið fram í: Vonandi.) (Gripið fram í: Og þar næstu.) Hvers vegna? Vegna þess að ég þoli ekki þennan yfirgang og þessa frekju. Það eru lög í landinu um það hvernig á að ákveða hvað á að virkja, hvað á að vernda og hvað á að vera í biðflokki. Það tók langan tíma að smíða þau lög og samþykkja þau. Þau voru samþykkt hérna einróma.

Við vorum með ráðherra umhverfismála sem hefði örugglega viljað virkja meira, en hann fer eftir þessum lögum og treystir sér bara til að leggja fram tillögu um að einn virkjunarkostur fari í nýtingarflokk, Hvammsvirkjun, á grunni þessara laga. Það er tillagan. Þess vegna eru tillögur um að setja Urriðafoss, Holtavirkjun, Skrokkölduvirkjun og Hagavatnsvirkjun í nýtingarflokk róttækar. (Forseti hringir.) Þær eru mjög róttækar. Þær byggja ekki á réttmætum grunni. (Forseti hringir.) Ef menn ætla að leggja fram slíka tillögu þá er það lágmarkskrafa, ég ítreka hana, að hún komi fram (Forseti hringir.) sem sérstök tillaga því að hún verður að fá viðhlítandi meðferð í þinginu, tvær umræður og meðferð í þingnefnd.