144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[20:50]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Laxastofninn i Þjórsá hefur líka verið mikið í umræðunni og sumir hv. þingmenn hafa talað eins og hann sé mest rannsakaði stofn í heimi, það sé bara komið nóg og það liggi allt fyrir, en menn eru ekki alveg á einu máli þar. Það kom fram hjá Skipulagsstofnun að hún teldi ekki komin næg rök fyrir því að færa virkjanir í neðri hluta Þjórsár í nýtingu.

Mig langaði að heyra viðhorf hv. þingmanns gagnvart því sem við heyrðum í hv. atvinnuveganefnd, að ef svokallaðar mótvægisaðgerðir skiluðu ekki árangri væru 88% af laxastofninum í Urriðafossi farin og 52% af laxastofninum í Holtavirkjun. Erum við til þess bær, þessi kynslóð, að taka slíka áhættu með þennan villta og einstæða stofn (Forseti hringir.) sem við eigum í Þjórsá?