144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:37]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Nú er klukkan rúmlega hálftíu og við fáum væntanlega að heyra í hæstv. ráðherra á eftir um stöðu málsins að hennar mati. Ég velti því upp hér í dag, eins og sá hv. þingmaður sem situr á forsetastóli, að það eru ekki margir dagar eftir af þingi. Hvers vegna er þetta mál sett inn í bullandi ágreiningi? Hæstv. forseti Einar Kristinn Guðfinnsson vissi að það þýddi að dagskráin færi öll í uppnám.

28. apríl var lagt fram nefndarálit um lokafjárlög 2013 sem þarf að afgreiðast. Frá allsherjar- og menntamálanefnd var afgreitt 17. mars nefndarálit um grunnskóla, 5. maí um dómstóla, 1. apríl um meðferð sakamála og lögreglulög og svo er fullt af EES-málum og ég er bara að tala um málefni sem eru í allsherjar- og menntamálanefnd og svo það sem búið er að afgreiða úr fjárlaganefnd. Þetta eru allt mál sem væri hægt að afgreiða hér án þess að dagskráin færi í uppnám og ég skil ekki hæstv. forseta að setja ekki þau mál á dagskrá og klára þau (Forseti hringir.) í stað þess að taka þetta mál fyrir.