144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

dagskrá þingsins.

[15:13]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langar að taka undir það sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir sagði; hún tók mjög vel saman hvaða álitamál væru í þessu. Þetta er ekki til þess fallið að vera með langtímastefnumótun í orkumálum á Íslandi. Það kemur einmitt mjög skýrt fram í McKinsey-skýrslunni um Ísland á bls. 85, svo að ég segi það aftur til að fólk geti nú farið að líta á það hvað langtímastefnumótun er ábótavant á Íslandi og hvað það er kostnaðarsamt að vera ekki með langtímastefnumótun í svona stórum málaflokkum, en orkumál er einn af þeim flokkum sem er nefndur.

Eitt af þeim álitamálum sem koma fram í áliti frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu er hvort sú málsmeðferð í þinginu að taka inn aðra virkjunarkosti en eru í upphaflegu þingsályktuninni sé mögulega lögbrot. Slík þingsályktunartillaga sem kemur frá þinginu og stangast á við lög er ótæk. Ráðherra má ekki framfylgja henni. Hvers vegna erum við að ræða svoleiðis mál hérna á þinginu? (Gripið fram í.)Bakka menn ekki bara með þessa virkjunarkosti, fara svo í það að (Forseti hringir.) skipa fólk í þessa verkefnisstjórn (Forseti hringir.) sem er þeim hliðhollt og fer þannig eftir ferlinu þó að það séu að vísu pólitísk bolabrögð? Svona lagað er bara lögbrot. Þar af leiðandi er málið dautt þegar það kemur út úr þinginu. (Forseti hringir.) Við eigum ekkert að vera að ræða svona mál hérna núna.