144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

dagskrá þingsins.

[15:14]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta mál er ekki til þess fallið að auka traust á þinginu. Eins og hér hefur komið fram er lagalegur grunnur þessarar breytingartillögu veikur svo ekki sé meira sagt. Umræðan hér í gær hefur líka afhjúpað þá staðreynd að meiri hluti atvinnuveganefndar hefur ekki getað svarað þeirri gagnrýni sem hefur verið færð fram, m.a. hvað varðar þennan lagalega grunn, og hefur því ekki getað staðið fyrir máli sínu og útskýrt af hverju hann telur þessa tillögu tæka. Í raun hafa engin svör borist um það. Það kristallaðist hér í gær þegar hæstv. umhverfisráðherra steig á stokk og sagði að hún hefði ekki lagt fram þessa tillögu, hún hefði fylgt fordæmi fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra og gert tillögu um einn kost eins og verkefnisstjórn rammaáætlunar lagði til. Maður hefur það á tilfinningunni að uppnámið í þessari umræðu skýrist líka af þeirri greinilegu óeiningu sem er á milli stjórnarflokkanna þar sem hv. formaður atvinnuveganefndar kemur síðan hingað upp og segir að einstaka ráðherrar skipti ekki máli. Einstaka ráðherrar, sem (Forseti hringir.) eru ráðherrar málaflokksins í þessu tilviki, skipta ekki máli.

Hvað segja framsóknarmenn um þetta? Standa þeir (Forseti hringir.) á bak við sinn ráðherra í þessu máli? Ég mundi gjarnan vilja heyra það áður en lengra er haldið í umræðunni hvort hv. þingmenn Framsóknarflokksins (Forseti hringir.) standi á bak við sinn umhverfisráðherra í þessu máli.