144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

dagskrá þingsins.

[15:19]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Eins og aðrir þingmenn mótmæli ég því að þetta mál sé sett hér á dagskrá. Ég verð að segja, forseti, að ég átta mig ekki á pólitíkinni á bak við það að halda þinginu uppteknu við að ræða mál sem, eins og fram hefur komið hér, er á vægast sagt veikum löglegum grunni og enn veikari pólitískum grunni.

Hér kemur hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, með tölulegar upplýsingar um það hversu margar mínútur hafi farið í fundarstjórn forseta. (Gripið fram í.) Nú er spurningin: Í hvaða tilgangi er þetta gert? Kannski óttast hv. þingmaður að einhver met séu að falla frá síðasta kjörtímabili, en ef hins vegar kemur í ljós að færri mínútur hafi farið í fundarstjórn forseta á síðasta kjörtímabili gefur það bara vísbendingu um að færri ástæður hafi verið til þess að gera athugasemdir við fundarstjórn forseta á síðasta kjörtímabili. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: … Icesave.)