144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:51]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er svolítið einkennandi fyrir málflutning stjórnarliða. Í staðinn fyrir að standa fyrir máli sínu þá ætla þeir að reyna þetta, aha, nú ætla ég að taka hana á einhverju svona. Virðulegi forseti. Ég fór vandlega yfir það í ræðu minni áðan hvernig þetta var allt saman. Við fengum á þriðja hundrað umsagnir í lögbundnu umsagnarferli á síðasta kjörtímabili. Í þeim umsögnum komu fram ýmsar skoðanir og líka ný sjónarmið hvað varðaði laxastofninn í Þjórsá. Í stað þess að við tækjum pólitíska ákvörðun um að láta þetta annaðhvort standa eða færa kostina í verndarflokk eins og mikill þrýstingur var á um þá ákváðum við að biðja verkefnisstjórnina, hina faglegu aðila, að endurmeta þetta í ljósi umsagnanna þannig að við tækjum ekki pólitíska, efnislega afstöðu til málsins. Það var grundvallaratriði í því sem gert var á síðasta kjörtímabili. Ég veit að það er örugglega mjög snúið fyrir framsóknarmann að skilja svona afstöðu, sérstaklega mann sem hefur tekið ákvörðun um að láta pólitíska duttlunga ráða för um það hvar nýtt er í náttúrunni, en svona var þetta einfaldlega. (Forseti hringir.) Það var það sem réði för.