144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[11:02]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Hv. þm. Páll Jóhann Pálsson kemur hingað upp og talar um kvartkór. Það er ekki að kvarta að hafa áhyggjur af forgangsröðun í störfum þingsins og dagskrá þess, það er að sýna ábyrgð. Við köllum eftir því að haft verði samráð um það hvaða mál eigi að setja á dagskrá og klára á þeim örfáu dögum sem eftir eru þangað til við eigum að ljúka störfum. Ég vil taka undir með þeim sem hafa bent á að nær væri að ræða hér um möguleg útspil ríkisins til þess að liðka fyrir kjaradeilunum. Þúsundir manna eru í verkfalli. Það hlýtur að vera eitt af þeim stóru málum sem við eigum að hugsa um núna þegar aðeins örfáir dagar (Forseti hringir.) eru til þingloka.