144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

ummæli forsætisráðherra um rammaáætlun.

[11:59]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mér verður mjög tíðrætt um form undir þessum lið, því að form er lykilatriði í lýðræðissamfélagi, að við virðum formið. Og formleysið ágerðist hér enn með þessari yfirlýsingu hæstv. forsætisráðherra þar sem hann segir okkur að búið sé að gera samkomulag um að breyta breytingartillögu sem hér liggur fyrir. Þetta er algjör formleysa fyrir utan að tillagan endurspeglar það að hæstv. forsætisráðherra, sem vildi meina að með þessu væri komið til móts við þá gagnrýni sem hér hefur verið sett fram, sýnir að hann hefur ekki hlustað á umræðuna, því að það liggur fyrir að allir þeir kostir sem birtast í breytingartillögu meiri hluta atvinnnuveganefndar eru sama marki brenndir, þ.e. að verkefnisstjórn hefur ekki lokið umfjöllun um þá. Fyrir því eru færð greinargóð rök í greinargerðinni með tillögu hæstv. umhverfisráðherra sem var lögð hér fram í haust. Á meðan þessi breytingartillaga er hér inni, þar sem gengið er fram hjá lögbundnu ferli, er (Forseti hringir.) ekki hægt að ljúka afgreiðslu hennar, það er bara þannig. Við verðum að fara að virða þetta form, herra forseti.