144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

ummæli forsætisráðherra um rammaáætlun.

[12:19]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég komst ekki í það áðan að þakka hæstv. forseta fyrir það tækifæri að funda með honum á eftir um framvindu þessa máls. Auðvitað hefði maður viljað að við hefðum á fyrri stigum getað sest yfir það og reynt að átta okkur á því úr því að það lá ekki fyrir. Ég held því reyndar fram að strax á mánudaginn síðasta hefðum við getað séð fyrir að þetta færi allt í mikið óefni ef þessar breytingartillögur færu fram. Það á ekki að koma neinum á óvart að hér hefur orðið mikið uppnám. Það kemur ekkert annað til greina í þessu máli en að þessar breytingartillögur atvinnuveganefndar verði allar dregnar til baka og þá geta menn eins og ég sem er andvígur því að ráðist verði í Hvammsvirkjun að minnsta kosti sagt að verkferlið hafi allt verið virt. Þá er ég persónulega á móti þessari virkjun, persónulega (Forseti hringir.) á móti þeirri breytingu á landslagi sem hún felur í sér. En verklagið hefur verið virt vegna þess að það er eina virkjunarhugmyndin sem verkefnisstjórnin lagði til að yrði flutt á milli flokka.