144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:44]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég verð að taka undir með félögum mínum hér. Hæstv. forsætisráðherra verður tíðrætt um rökræðu og þá ættu stjórnarliðar auðvitað að vera hér í sal og hlusta. Formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flutti hér sína fyrstu ræðu í þessu stóra og mikilvæga máli og mér finnst alveg ótækt að hæstv. ráðherra skuli ekki hafa séð sér fært að vera í þingsal. Á að þurfa að biðja ráðherrann að vera við það mál sem hún væntanlega telur vera það allra mikilvægasta? Fyrst því er þvingað inn á dagskrána alla daga hlýtur hún að þurfa að vera hér, standa með því og fylgja því eftir, m.a. með því að koma í andsvör við stjórnarandstöðuþingmenn. Mér finnst algjört lágmark að koma í andsvör við formenn flokkanna.

Og af því að hér hefur mikið verið vitnað í ASÍ-umsögnina vil ég segja að ég get ekki séð að ASÍ styðji þetta mál. Mér þætti vænt um að hv. þm. Páll Jóhann Pálsson fyndi fyrir mig og merkti þá línu þar sem ASÍ er svona ægilega mikill (Forseti hringir.) stuðningsaðili þessa máls.